EN

24. ágúst 2006

Sala hafin á tónleika FL-Group og Sinfóníuhljómsveitarinnar til styrktar BUGL

Miðasala á tónleika Sinfóníuhljómsveitarinnar og Barböru Bonney, sem verður í Háskólabíói þann 9. september næstkomandi kl. 17.00, er hafin. Tónleikarnir eru styrktartónleikar hljómsveitarinnar og aðalstyrktaraðili hennar Fl-Group, við átaksverkefni Barna- og unglingageðdeildar Landspítala háskólasjúkrahúss, "Lífið kallar". Verði aðgöngumiða er stillt í hóf en þeim sem ekki eiga heimangengt á umræddum degi er bent á að þeir geta lagt málefninu lið með frjálsum framlögum inn á bankareikning: 0101-26-600600, kt 601273-0129.+++ Markmið verkefnisins er að styrkja fjölskyldur barna og unglinga sem eiga við andlega erfiðleika að etja. Sérstök áhersla verður lögð á aðstoð við mótun nýrrar lífssýnar í bráðameðferð og ekki síst að henni lokinni, þar sem inntakið er lífsgleði. FL Group hefur markað þá stefnu að styðja verkefni er lúta að mannúð og menningu. Fyrr á þessu ári gerðu FL Group og Sinfóníuhljómsveit Íslands með sér samstarfssamning til næstu fjögurra ára og er þar um veglegt framlag að ræða til menningar. Einn þáttur samstarfsins eru árlegir styrktartónleikar og þeir fyrstu verða helgaðir verkefninu “Lífið kallar.” "FL Group hefur að þessu sinni ákveðið að leggja málefnum barna og unglinga sérstakt lið. Framtíð lands og þjóðar verður í höndum þeirra barna og unglinga sem nú alast upp. Því ber okkur skylda að huga að velferð þeirra og veita þeim stuðning til að njóta hæfileika sinna á sem flestum sviðum. Það er því mjög ánægjulegt að fyrstu styrktartónleikarnir séu haldnir til að styðja með markvissum hætti verkefnið "Lífið kallar". Það er von okkar að sem flestir landsmenn sjái sér fært að leggja þessu góða málefni lið", segir Smári S. Sigurðsson, stjórnarmaður í FL Group, sem hefur unnið að undirbúningi styrktartónleikana fyrir hönd félagsins. Sinfóníuhljómsveit Íslands fagnar því einnig að geta látið meira til sín taka í samfélaginu og nú á þann hátt að leggja jafn brýnu málefni lið. Á tónleikunum, sem hefjast klukkan 17.00 laugardaginn 9. september, mun bandaríska sópransöngkonan Barbara Bonney koma fram með hljómsveitinni undir stjórn aðalhljómsveitarstjóra hennar, Rumon Gamba og syngja fimm sönglög eftir Grieg. Á efnisskránni verða einnig Roman Carnival eftir Hector Berlioz og ævintýrið um Scheherazade eftir Nicolai Rimsky-Korsakov. Barbara Bonney er í hópi eftirsóttustu söngkvenna heimsins og koma hennar hingað til lands er hvalreki á fjörur tónlistarunnenda og glæsileg byrjun á starfsárinu. “Lífið kallar” Barna- og unglingageðdeild Landspítala - háskólasjúkrahúss, BUGL, sinnir mikilvægu starfi sem kunnugt er. Fjárskortur sníðir þeirri brýnu þjónustu sem þar er veitt þröngan stakk. Því hefur FL Group og Sinfóníuhljómsveit Íslands ákveðið að ágóði þessara fyrstu styrktartónleika renni til átaksverkefnis BUGL "Lífið kallar". Örugg tengsl milli foreldra og barns og innan fjölskyldu almennt, er sá grunnur sem verndar barnið gegn því að andlegar þrengingar festist í sessi og verði fylginautur þess í framtíðinni. Það er í skjóli þessara öruggu tengsla sem barnið getur lært nýjar leiðir til að takast á við erfiðleika og finna lífslöngunina á ný og tekist á uppbyggilegan hátt á við eigið þroskaferli. Sum börn hafa fengist við missi og sorg, aðskilnað við ástvini, ótrygg tengsl og lært hjálparleysi sem hefur mótað þeirra afstöðu til lífsins. Að stuðla að breyttri afstöðu til lífsins út frá nýjum valkosti sem skapar nýjan skilning á lífinu og framtíðinni er inntak hópmeðferðarinnar. Hugmyndin er að þannig styrkist sjálfsmynd þeirra barna og unglinga sem taka þátt í verkefninu. Draumur verður að veruleika – mikil viðbót. “Það hefur verið ósk okkar á göngudeild BUGL í langan tíma að hafa möguleika til þess að veita þeim hópi sem kemur í bráðaþjónustu markvissari og skilvirkari meðferð. Hér er um að ræða stuðningsverkefni sem mun ná til allt að 120 barna og fjölskyldna þeirra á ári. Þannig mun þessi meðferð ná til 4 til 5 hundruð manns á ári enda má reikna með að hver fjölskylda samanstandi af 3-5 manns og auk þess munu einhverjir aðilar úr stórfjölskyldu barnsins taka þátt að auki. Stefnan er að meta líðan og lífsgæði þess fólks sem tekur þátt í prógramminu, í upphafi þess, í lokin og 4 mánuðum eftir að því lýkur. Þannig munum við safna gögnum sem munu skila okkur upplýsingum um hverju þessi meðferð skilar fyrir skjólstæðingana. Stuðningur við þetta verkefni mun einnig hafa víðtækari jákvæð áhrif á stofnunina vegna þess að vegna verkefnisins og aukins starfskrafts mun skapast tími til að sinna málum af biðlista en hann hefur verið allt of langur í langan tíma” segir Hrefna Ólafsdóttir yfirfélagsráðgjafi á BUGL.