EN

11. september 2006

Tónleikar á Egilsstöðum 15. september

Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur tónleika í íþróttamiðstöðinni á Egislsstöðum föstudaginn 15. september klukkan 19.30. Á tónleikunum verður lögð áhersla á stutt og fjölbreytt verk og því einstakt tækifæri fyrir áhugasama að heyra hve blæbrigði heillar sinfóníuhljómsveitar geta verið margvísleg; falleg, kraftmikil, jafnvel ógnvekjandi á köflum en alltaf skemmtileg. Verkin spanna langan tíma í sögu tónbókmenntanna og eru eftir jafn ólíka höfunda og franska rómantíkerinn Hector Berlioz, breska tónskáldið Sir Malcolm Arnold og meira að segja Jón, okkar, Múla Árnason sem reyndar ólst upp á Austfjörðum. Hann neitaði því ávallt að vera tónskáld og svaraði erlendum kollega sínum þannig: “I am no god damn composer. I´m just a lousy tunesmith”. Það þarf þó ekki að hlusta lengi á tónlist Jóns Múla til þess að verða honum ósammála. Héraðsbúa bíða því fjölmargar skrautfjaðrir á tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar. Miðasala verður við innganginn en miðaverð er 2000 krónur fyrir fullorðna en 1000 krónur fyrir börn 16 ára og yngri og námsmenn sem framvísa námsmannaskírteinum. Efnisskrá: +++ Hljómsveitarstjóri: Rumon Gamba: Hector Berlioz: Roman Carnival Malcolm Arnold: Sinfónía nr. 5, 2. kafli Nikolaj Rimskíj-Korsakov: Scheherasade, 1.og 2. kafli Hlé Aaron Copland: Fanfare for the common man Nikolaj Rimskíj-Korsakov: Scheherasade, 3. kafli Edvard Elgar: Nimrod, úr Enigma tilbrigðum Johannes Brahms: Ungverskur dans nr. 5 Edvard Elgar: Pomp & Circumstanses Jón Múli Árnason: Múlasyrpa (úts. Hrafnkell Orri Egilsson). Alfreð Clausen: Manstu gamla daga (úts. Hrafnkell Orri Egilsson)