EN

20. september 2006

Lifandi goðsögn á leið til landsins

Pólska tónskáldið Krzyztof Penderecki er einn mesti tónlistarjöfur vorra daga og koma hans til Íslands án efa einn af hápunktum vetrarins. Hann mun meðal annars stýra tveimur sinna eigin verka auk sinfóníu nr. 4 eftir Beethoven á tónleikum í Háskólabíói 28. september næstkomandi. Magnaðir tónleikar á Listahátíð 1988 þar sem Penderecki stjórnaði Pólskri sálumessu sinni eru mörgum enn í fersku minni. Nú er meistarinn með nýlegan píanókonsert í farteskinu, „Upprisukonsertinn“ svokallaða, sem var saminn 2001 og hefur farið sigurför um heiminn. Auk þess stjórnar hann stuttu en áhrifamiklu strengjaverki sem hann samdi 2005 í minningu Jóhannesar Páls páfa II. Það ætti enginn að vera svikinn af hinni einstöku blöndu ólgandi síðrómantíkur og krassandi nútímatónlistar sem Penderecki hefur laðað fram í nýlegum verkum sínum. Einleikari á tónleikunum er þýski píanistinn Florian Uhlig sem tímaritið Musical Opinin kallaði: "Einn hugmyndaríkasta og sérstæðasta píanista ungu kynslóðarinnar". Enn eru nokkur sæti laus á tónleikana og því ekki seinna vænna að tryggja sér miða!