EN

23. október 2006

Karlakórinn Fóstbræður ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands laugardaginn 28. október

Karlakórinn Fóstbræður fagnar 90 ára afmæli sínu um þessar mundir. Af því tilefni efnir kórinn og Sinfóníuhljómsveit Íslands til veglegra afmælistónleika í Háskólabíó þann 28. október n.k. Árni Harðarson stjórnandi Fóstbræðra mun þar leiða kór og hljómsveit í efnisskrá sem er í senn sígild og nýstárleg. Tónleikarnir hefjast kl. 17.00. Á fyrrihluta tónleikanna heiðra Fóstbræður og Sinfóníuhljómsveitin þann menningararf og hefðir sem tónlist af þessu tagi byggir á og þá hljóma Brennið þið vitar eftir Pál Ísólfsson ásamt verkum eftir Edvard Grieg, Jón Ásgeirsson, Verdi og George Gershwin. Einsöngvari með kór og hljómsveit í þessum hluta verður Bjarni Thor Kristinsson bassasöngvari sem fer hamförum í Brottnáminu úr kvennabúrinu í Íslensku óperunni um þessar mundir. +++ Eftir því sem líður á tónleikana færumst við nær nútímanum og kórinn flytur lagaflokk eftir Gustav Holst fyrir karlakór og strengjasveit og frumflytur glænýtt verk eftir Áskel Másson sem hann samdi sérstaklega fyrir Fóstbræður við kvæði úr ljóðaflokki Hannesar Péturssonar. Raddir á daghvörfum. Í lok tónleika flytja Fóstbræður lag Bjarkar Guðmundsdóttur, Army of Me, útsett fyrir karlakór og sinfóníuhljómsveit og tvö lög úr smiðju Stuðmanna og mun gleðisveitin sjálf stíga á svið með kór og hljómsveit við þetta tækifæri. Haraldur V. Sveinbjörnsson hefur útsett lög Bjarkar og Stuðmanna fyrir kór og hljómsveit. Karlakórinn Fóstbræður hefur í 90 ár staðið í fremstu röð karlakóra á Íslandi og á Norðurlöndum og tekið virkan þátt í íslensku tónlistarlífi allan tímann. Saga kórsins er því samofin sögu tónlistar á Íslandi á tuttugustu öld og sögu íslenskrar þjóðar á leið til sjálfstæðis og nútíma. Á hátíðastundum í sögu Íslands hefur Karlakórinn Fóstbræður oftast verið virkur þátttakandi og frumflutt sum þeirra verka sem löngu eru orðin sígild í tónbókmenntum Íslendinga. Árni Harðarson hefur stjórnað Fóstbræðrum í 16 ár og er hann áttundi stjórnandi kórsins frá upphafi. Hinir voru taldir í tímaröð: Jón Halldórsson, Jón Þórarinsson, Ragnar Björnsson, Garðar Cortes, Jón Ásgeirsson og Jónas Ingimundarson.