EN

27. nóvember 2006

Denyce Graves leysir Jessye Norman af hólmi á tónleikum SÍ í desember nk.

Af óviðráðanlegum ástæðum getur söngkonan Jessye Norman ekki komið fram á tvennum tónleikum hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands sem fyrirhugaðir eru 7. og 9. desember n.k. Starfsfólk Sinfóníuhljómsveitarinnar hefur brugðist skjótt við og tryggt sér krafta einnar mest lofuðu söngstjörnu heims um þessar mundir, Denyce Graves. Ferill Denyce Graves, sem er mezzosópran hefur verið ein óslitin sigurganga frá því að hún kom fyrst fram í Metropolitan óperunni í New York í hlutverki Carmen í samnefndri óperu árið 1996. Það hlutverk hefur hún síðan oft túlkað á stórbrotinn hátt í þekktustu óperuhúsum heims. +++ Denyce Graves hefur unnið til fjölda alþjóðlegra verðlauna og komið fram með mörgum af helstu hljómsveitum heims þar sem hún hefur unnið með stjórnendum á borð við Riccardo Chailly, Myung-Whun Chung, Charles Dutoit, Christoph Eschenbach, James Levine, Zubin Mehta, Lorin Maazel, Kurt Masur, Riccardo Muti, og Mstislav Rostropovich. Denyce Graves kom fram á hátíðartónleikum við afhendingu friðarverðlauna Nobels árið 1999 í Osló. Árið 2000 söng hún á "Tónleikum fyrir jörðina" sem haldnir voru í tengslum við umhverfisráðstefnu SÞ í Rio de Janeiro og var þeim útvarpað beint um allan heim. Hún söng við opinbera minningarathöfn í Washington DC um þá sem létu lífið 11. september árið 2001 en þeirri athöfn var útvarpað og sjónvarpað um allann heim. Denyce Graves ber nú titilinn Menningarsendiherra Bandaríkjanna. Nokkrar umsagnir um Denyce Graves: „ein af líklegustu stórstjörnum óperusviðsins á 21. öld" USA Today „Ef mannsröddin getur hreift við þér þá mun Denyce Graves svo sannarlega snerta þig." Atlanta Journal-Constitution „Hún hefur magnaða sviðsframkomu og hélt áheyrendum sínum hugföngnum alla tónleikana." New York Times Þeir sem þegar hafa keypt sér miða hjá hljómsveitinni er bent á að hafa samband við miðasölu í síma 545 2500 eða á skrifstofu í Háskólabíói sé endurgreiðslu óskað.