EN

14. desember 2006

Yngsti nemandi Listaháskólans leikur með SÍ á jólatónleikum 16. des.

Jólatónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands hafa fyrir löngu bitið sig fasta í almanakið hjá mörgum, orðnir ómissandi viðburður í aðdraganda jólanna. Í ríflega áratug hefur hljómsveitin ásamt Bernharði Wilkinsyni, hljómsveitarstjóra, sem kann öðrum mönnum fremur að koma fólki í jólaskap, töfrað fram hátíðleika í tónum með aðstoð fjölda, góðra gesta. Á tónleikunum sem verða alls tvennir, laugardaginn 16. desember, stígur á stokk með hljómsveitinni fiðluleikarinn Hulda Jónsdóttir, sem hefur undanfarin ár verið undir handleiðslu Guðnýjar Guðmundsdóttur konsertmeistara í diplómanámi í Listaháskólanum. Hulda er aðeins 15 ára gömul og er yngsti nemandinn sem hefur verið tekin inn í Listaháskólann frá stofnun skólans en þess má geta að diplómabrautin var einmitt stofnuð fyrir unga framúrskarandi hljóðfæraleikara. Hulda mun leika verk Henryk Wieniawski: Polonaise de concert op. 4. nr. 1 í D-dúr. Hulda leikur á fiðlu sem smíðuð var af Vincenzo Sannino í kringum 1920, en Victor Fetique gerði bogann. Hvort tveggja hefur hún að láni frá Rachel Elizabeth Barton Stofnuninni í Chicago. Á jólatónleikunum koma einnig fram +++ nemendur úr Listdansskólanum og dansa við Hnotubrjót Tsjajkovskíjs. Danshöfundur og kennari stúlknanna er Sigríður Guðmundsdóttur, kennari í klassískum listdansi við Listdansskóla Íslannds. Kynnir verður Margrét Örnólfsdóttir en eins og flestum er kunnugt hefur hún komið víða við á sínum ferli sem hófst í hljómsveitinni Sykurmolunum, þar sem Margrét lék á hljómborð. Hún hefur samið leikhús- og kvikmyndatónlist, stjórnað barnaþáttum í sjónvarpi, tónlistarþáttum í útvarpi og skrifað handrit fyrir kvikmyndir og sjónvarp, má þar nefna dans- og söngvamyndina Regínu sem Margrét samdi bæði handrit og tónlist að. Bernharður Wilkinson er stjórnandi á tónleikunum eins og raunar svo oft áður á jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hann hefur tekið þátt í jólaævintýrinu með hljómsveitinni í næstum tíu ár og afslappað og skemmtilegt andrúmsloft tónleikanna er ekki síst hans verk. Vinsældir tónleikanna hafa verið miklar og síðustu ár hefur þurft að bæta við aukatónleikum vegna mikillar eftirspurnar. Hver veit nema að þeir verði þrennir að ári! Sem stendur eru einungis örfáir miðar eftir á báða tónleikana og því ljóst að áhugasamir þurfa að hafa hraðar hendur ætli þeir sér að ná í miða. Fyrri tónleikarnir hefjast klukkan 14 en þeir seinni klukkan 17.