EN

17. janúar 2007

Sí leikur fjögur íslensk verk á Myrkum músíkdögum

Tónlistarhátíðin Myrkir músíkdagar var fyrst haldin í Reykjavík árið 1980 og fagnar því 27 ára afmæli sínu á árinu 2007. Hátíðin er tileinkuð nýrri íslenskri tónlist og eru tugir íslenskra tónverka frumfluttir þar hverju sinni. Á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Myrkum músíkdögum hefur í gegnum tíðina skapast mikilvægur vettvangur fyrir nýja íslenska hljómsveitartónlist. Í ár eru það fjórir höfundar sem kynna verk sín á tónleikunum með Sinfóníuhljómsveitinni þann 25. janúar næstkomandi, þau Karólína Eiríksdóttir, Örlygur Benediktsson, Herbert H. Ágústsson og Erik Mogensen. Hljómsveitarstjóri er Roland Kluttig. +++ Karólína Eiríksdóttir stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem Þorkell Sigurbjörnsson var kennari hennar í tónsmíðum. Hún hefur frá árinu 1979 búið og starfað á Íslandi og unnið við tónsmíðar og margvísleg önnur tónlistarstörf. Tónverk hennar hafa verið leikin víða um heim við ýmis tækifæri. Karólína samdi konsert sinn fyrir tvær flautur sérstaklega fyrir einleikararana, hjónin Martial Nardeau og Guðrúnu Birgisdóttur. Örlygur Benediktsson hóf tónlistarnám hjá Robert og Juliet Faulkner í Hafralækjarskóla, Aðaldal. Síðan lá leiðin í tíma hjá tréblásarameisturum Tónlistarskólans í Reykjavík og loks í tónfræðadeild, þar sem helstu kennarar hans voru Tryggvi M.Baldvinsson og Kjartan Ólafsson. Eftir lokapróf þaðan, árið 2000, tók við þriggja ára framhaldsnám sem lauk með Diplomaprófi í tónsmíðum hjá prófessor Sergei Slonimsky við rússnesku Ríkiskonservatoríuna í St. Pétursborg. Herbert H. Ágústsson stundaði tónlistarnám í Graz og voru aðalkennarar hans í tónsmíðum prófessor Arthur Michl og dr. Franz Mixa. Herbert var hornleikari í Fílharmoníuhljómsveitinni í Graz á árunum 1945-1952 en þá kom hann til Íslands og gerðist fyrsti hornleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Concerto breve samdi Herbert árið 1965 en Sinfóníuhljómsveit Íslands lék verkið fyrst árið 1971. Þýski hljómsveitarstjórinn Roland Kluttig hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli á undanförnum árum sem óperustjóri í Stuttgart, og ekki síður fyrir tónleika þar sem hann stjórnar samtímatónlist af mikilli röggsemi. Hann var tónlistarstjóri kammerhópsins Neue Musik Berlin frá 1993–1999, og hefur auk þess stjórnað m.a. Sinfóníuhljómsveit Berlínar, Útvarpshljómsveitinni í Stuttgart og komið fram á Berliner Festwochen og nútímahátíðinni í Donaueschingen. Meðal nýlegra verka sem hann hefur fært upp eru Móses og Aron (Schönberg), Neither (Morton Feldman), Al gran sole (Luigi Nono) og Litla stúlkan með eldspýturnar (Helmut Lachenmann). Guðrún Birgisdóttir og Martial Nardeau hófu að leika saman árið 1979 í Frakklandi. Árið 1992 unnu þau til verðlauna í París sem dúó. Þau hafa leikið tvíleikskonserta m.a. með Kammersveit Reykjavíkur, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Orquesta del Estado deMexico. Þau hafa leikið saman fjölmarga tónleika í tíu löndum. Mörg íslensk tónskáld hafa samið fyrir þau tónverk sem þau hafa hljóðritað og flutt hér heima og erlendis. Guðrún og Martial hafa einnig tekist á við barokkflautuleik og frumflutt mörg barokkflautuverk á Íslandi. Saman hafa þau gefið út hljómdiska og víða leikið í skólum landsins. Guðrún og Martial hafa leikið saman í Hljómsveit íslensku óperunnar og í Kammersveit Hallgrímskirkju í fjölda ára. Konsert Karólínu er fjórða og veigamesta verkið sem hún semur fyrir Martial og Guðrúnu.