30. janúar 2007
Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur tónleika á Akureyri 6. febrúar
Sinfóníuhljómsveit Íslands heimsækir höfuðstað norðurlands og heldur tónleika í íþróttahúsinu við Síðuskóla, þriðjudaginn 6. febrúar næstkomandi. Tónleikarnir eru liður í undirbúningi hljómsveitarinnar fyrir tónleikaferð til Þýskalands, Austurríkis og Króatíu síðar í mánuðinum. Á efnisskránni eru verk eftir Jón Leifs, Edvard Grieg og Dímítríj Sjostakovitsj. Hljómsveitarstjóri er Rumon Gamba en einleikari er rússneski píanóleikarinn Lilya Zilberstein. Miðasala á tónleikana er í Pennanum, Hafnarstræti, og við innganginn fyrir tónleikana. Miðaverð er 2500 krónur en einungis 1250 krónur fyrir 16 ára og yngri. Hljómsveitarstjóri á tónleikunum +++er Rumon Gamba, aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands árinu 2002. Einleikari er rússnesski píanistinn Lilya Zilberstein en hún hefur verið talin einn fremsti píanóleikari Rússlands af yngri kynslóðinni og verið nefnd “seiðkona slaghörpunnar”. Zilberstein hefur reglulega komið fram með hinni víðfrægu Berlínarfílharmóníu og var um árabil á samningsbundin útgáfufyrirtækinu Deutsche Grammophon og hljóðritanir hennar hafa hlotið mikið lof gagnrýnenda. Tónlist Jóns Leifs var, þegar best lét, tekið af tómlæti hérlendis og hann átti aldrei velgengni að fagna á meðal samtímamanna sinna á Íslandi. Það er athyglsivert að það var fyrir hans atbeina að Íslendingar heyrðu fyrst í fullskipaðri sinfóníuhljómsveit en það var þegar Fílharmóníusveit Hamborgar kom hinga til lands og lék undir stjórn tónskáldsins sumarið 1926. Í seinni tíð hefur vegur Jóns Leifs hins vegar vaxið jafnt og þétt, fjöldi hljóðritana hafa verið gerða á verkum hans og skemmst er að minnast stórbrotins frumflutnings á EDDU I í Háskólabíói á síðasta ári. Margir tóku jafnvel svo djúpt í árinni að það hefði verið merkasti tónleikaviðburður ársins 2006.Verkið Trilogiu samdi Jón á árunum 1919 til 1924. Það er í þremur þáttum og fyrir áhugasama má benda á að það var gefið út á hljómdiski árið 1996 í flutningi SÍ undir stjórn Osmo Vänskä á vegum BIS útgáfunnar. Píanókonsert Edvard Griegs varð fyrsti og áhrifamesti smellur hans, og vakti hrifningu tónlistarmanna um álfuna þvera og endilanga. Við frumflutninginn í Kaupmannahöfn ári síðar brutust út fagnaðarlæti strax að lokinni kadensunni í fyrsta þætti, og þegar Franz Liszt hafði lesið konsertinn beint af blaði í Róm 1870 er sagt að hann hafi hrópað upp yfir sig: „Haltu áfram að semja, í Guðs bænum! Þú hefur það sem til þarf!“ Það kemur því ekki á óvart að útgefandinn Peters hafi pantað annan píanókonsert frá Grieg 15 árum síðar, sem því miður varð ekkert úr. Sjaldan hefur nokkurt tónskáld átt jafn mikið undir viðtökum einnar tónsmíðar og þegar fimmta sinfónía Dímítríjs Sjostakovítsj var frumflutt í Leníngrad 1937. Ári áður hafði ferill Sjostakovítsj hrunið til grunna á einni nóttu, eftir að Jósef Stalín gekk út af hinni ögrandi óperu hans, Lafði Makbeð frá Mtsensk. „Óreiða í stað tónlistar“ var fyrirsögnin í Prövdu næsta morgun, og Sjostakovítsj var þess fullviss að örlög hans gætu ráðist af þessu eina verki. Þegar hann kallaði sinfóníuna „listrænt svar sovésks listamanns við réttmætri gagnrýni“ var hann eingöngu að segja yfirvöldum það sem þau vildu heyra. En ekki er allt sem sýnist. Þótt sinfónían sé tiltölulega slétt og felld á yfirborðinu er tónlistin hádramatísk og í heild er sinfónían einhver sú magnaðasta sem samin var á 20. öldinni. Jón Leifs: Trilogia E.Grieg: Píanókonsert D.Shostakovich: Sinfónía nr. 5 Eins og áður sagði verða tónleikarnir í íþróttahúsinu við Síðuskóla, þriðjudaginn 6. febrúar og hefjast þeir klukkan 19.30.