EN

30. mars 2007

Ashkenazy stjórnar tónleikum í Reykjavík og á Ísafirði 12. og 13. apríl

Árið 2002 þáði Vladimir Ashkenazy stöðu heiðursstjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands (Conductor Laureat). Sem slíkur kemur hann hingað til lands að minnsta kosti einu sinni á ári og stjórnar hljómsveitinni og að þessu sinni verður um tvenna tónleika að ræða. Þeir fyrri verða í Háskólabíói þann 12. apríl, en þeir seinni á Ísafirði, föstudaginn 13. apríl, í Íþróttahúsinu Torfnesi og hefjast þeir klukkan 19.00. Sama efnisskrá verður leikin á báðum tónleikunum.Vladimir Ashkenazy hefur í hartnær hálfa öld verið í hópi fremstu hljóðfæraleikara heimsins. Hann færir sig nú oftar og oftar á stjórnendapallinn og hróður hans sem slíkur eykst jafnt og þétt og skemmtilegt frá að segja, þá var það einmitt með Sinfóníuhljómsveit Íslands sem hann steig sín fyrstu spor í hlutverki hljómsveitarstjórans. Á efnisskrá tónleikanna eru þrjú verk, +++Melúsína hin fagra eftir Felix Mendelsohn, Píanókonsert í a moll eftir Robert Schumann og Symphony Fantastique eftir Hector Berlioz. Einleikari á tónleikunum er Gülsin Onay frá Tyrklandi sem hefur þótt túlka píanókonserta Chopins afbragðsvel og því fróðlegt að heyra hvað höndum hún fer um tónsmíð Schumanns þá er hann samdi fyrir unnustu sína Klöru. Konsertinn lét bíða eftir sér í tíu ár en biðin var vel þess virði, því konsertinn er talinn einn sá ljóðrænasti sem sögur fara af og hefur verið áheyrendum ómælanlegur gleðigjafi frá frumflutningi hans í Dresden árið 1845. Ludwig van Beethoven skrifaði aðeins eina óperu, Fídelíó, en það var ekki vegna þess að hvatninguna skorti frá vinum hans. Einn þeirra gekk meira að segja svo langt að skrifa fyrir hann óperutexta um vatnadísina Melúsínu, sem fer á land dag einn og verður ástfangin af dauðlegum manni. Beethoven samdi aldrei óperuna, en Mendelssohn hreifst svo af efninu að hann samdi forleik þar sem hann túlkar vatnadísina fögru á einstaklega heillandi og litríkan hátt. Draumórasinfónía hins hrifnæma Hectors Berlioz er annað verk sem samið er af tónskáldi með stjörnur í augum en hans beið þó vægast sagt harður skellur. Berlioz heillaðist upp úr skónum af ungri leikkonu en frétti stuttu síðar að hún væri í tygjum við umboðsmann sinn og féll honum þá allur ketill í eld. Hann samdi tónverk um mann sem leggur ást við konu sem enga kann á móti og í örvæntingu reynir hann að fremja sjálfsmorð (nokkuð sem Berlioz reyndi sjálfur nokkrum árum síðar þegar þáverandi ástmey hans sleit sambandi þeirra og trúlofaðist öðrum manni). Tilraunin mistekst, en í mókinu sem fylgir sér hann hina elskuðu í fararbroddi ógurlegrar nornafylkingar sem dansar trylltan dans við Dies Irae stefið margfræga. Atburðarásin verður ljóslifandi fyrir hlustandanum í þessu skemmtilega verki sem er einn af hornsteinum rómantíkurinnar í tónlist. Tónleikarnir á Ísafirði verða eins og áður sagði í Íþróttahúsinu á Torfunesi og hefjast þeir klukkan 19.00. Miðasala verður við innganginn. Nánast uppselt er á tónleikana í Háskólabíói en miðana er hægt að kaupa hér á síðunni. Tónleikar í Íþróttahúsinu Torfunesi Föstudaginn 13. apríl kl. 19:00. Miðaverð: 2.500 kr (börn 16 ára og yngri, 1250 kr.) Hljómsveitarstjóri: Vladimir Ashkenazy Einleikari: Gülsin Onay Efnisskrá: Felix Mendelsohn: Die schöne Melusine op. 32 Robert Schumann: Píanókonsert í a moll Hector Berlioz: Symphony Fantastique