EN

12. apríl 2007

Kammertónleikar í Listasafni Íslands laugardaginn 14. apríl

Kammertónleikaröð Sinfóníuhljómsveitar Íslands heldur áfram göngu sinni í Listasafni Íslands um helgina. Þá munu þau Sif Tulinius fiðluleikari, Þórunn Ósk Marinósdóttir víóluleikari, Sigurður Bjarki Gunnarsson sellóleikari og sérstakur gestur, Steinunn Birna Ragnarsdóttir píanóleikari, flytja píanókvartetta eftir Mozart og Brahms. Tónleikarnir hefjast klukkan 17.00 og miðasala er við innganginn. Aðgangseyrir er einungis 1500 krónur. +++ Árið 1785 falaðist þýski útgefandinn og tónskáldið Franz Anton Hoffmeister eftir þremur nýjum tónsmíðum fyrir píanó og strengi af 29 ára gömlum Wolfgang Amadeus Mozart. Píanókvartettinn var tekinn að ryðja sér til rúms á þeim tíma sem vinsælt en átakalítið tónsmíðaform sem gerði hvorki miklar kröfur til flytjenda né hlustenda. Mozart tók verkefnið að sér en það var augljóst þegar fyrsti píanókvartettinn leit dagsins ljós í október árið 1785 að tónskáldið hafði engan veginn hugsað sér tónsmíðina sem æfingu fyrir amatöra.Verkið þótti allt of torveld og snúin tónsmíð og ljóst að ágóði útgefandans Hoffmeister yrði lítill sem enginn, verkið sem sagt allt of erfitt fyrir markhópinn sem útgefandinn hafði haft í huga. Hoffmeister greiddi Mozart umsamið verð en sagði honum að af frekari útgáfu á píanókvartettum yrði ekki. Sem betur fer hélt Mozart áfram að þróa þetta tónsmíðaform eins og við heyrum í hinum undurfagra kvartett í Es-dúr K. 493. Píanókvartettar fram að þeim tíma höfðu iðulega verið samdir fyrir tvær fiðlur, selló og píanó. Í verkum Mozarts leysir víólan hins vegar aðra fiðluna af hólmi; tónskáldið enda mikill aðdáandi hlýs og angurværs tóns víólunnar eins og endurspeglast í ótal kammerverkum hans. Johannes Brahms samdi þrjá píanókvartetta um ævina – þá fyrstu tvo árið 1861 (í g-moll ópus 25 og í A-dúr ópus 26), verk sem teygja sig upp í tæpa þrjá stundarfjórðunga í flutningi hvort um sig og þann þriðja árið 1875. Sá þriðji á raunar langa og stranga sköpunarsögu að baki, eins og títt er með svo mörg verk hins sjálfsgagnrýna og óvægna Jóhannesar Brahms sem endurvann, breytti og umbylti verkum sínum og mátaði þau inn í alls kyns form áður en endanleg gerð leit dagsins ljós. Eins og fyrsta sinfónían er píanókvartettinn hárómantískt og átakamikið verk enda hóf Brahms að semja það á miklu átakaskeiði í lífi sínu – ástfanginn af eiginkonu besta vinar síns Róberts Schumanns sem sjálfur við glímdi við alvarlegt þunglyndi og lést árið 1856. Undirititillinn Werther sem hefur loðað lengi við píanókvartettinn í c-moll skýrist af frægri klausu í bréfi tónskáldsins til útgefandans Nikolaus Simrock þegar prentun að verkinu var í bígerð: „Ég vil að það sé mynd á forsíðunni. Byssa sem beinist að höfði. Og þá geturðu gert þér nokkra hugmynd um hvers konar verk er hér á ferð. Ég skal senda þér ljósmynd af mér fyrir þetta. Þú getur haft kápuna bláa, hnébuxurnar gular og há stígvél í lit – þú ert gefinn fyrir litprentun.“ Hér var sem sagt vísað til hinnar tragísku söguhetju Goethes um Werther hinn unga þar sem söguhetjan sviptir sig lífi vegna óendurgoldinnar ástar í garð eldri konu – hliðstæðan við ástarþríhyrning Jóhannesar, Róberts og Klöru er sem sagt býsna augljós og margir tónlistarfræðingar hafa viljað túlkað píanókvartettinn sem sögu um ástarraunir Brahms þar sem stefin eru beinlínis tengd ákveðnum karakterum. Og þótt slíkir leikir séu auðvitað skemmtilegir út af fyrir sig er hins vegar alveg ljóst að þetta magnaða verk rúmast illa innan svo niðurnjörvaðrar merkingar og gjöfulla að leyfa óræðri tónlistinni að tala sínu máli. Sif Tulinius, hefur verið 2. konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá haustinu 2000. Fyrir skemmstu lék hún Offertorium, konsert fyrir fiðlu og hljómsveit eftir Sofiu Gubaidulinu á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og hlaut mikið lof fyrir. Þórunn Ósk Marinósdóttir lauk meistaraprófi með láði frá Tónlistarháskólanum í Brussel árið 1996. Þórunn hefur verið fastráðin við Sinfóníuhljómsveit Íslands frá árinu 1998 og verið meðlimur í Kammersveit Reykjavíkur. Sigurður Bjarki lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1995 undir handleiðslu Gunnars Kvaran. Sigurður lauk Bachelors-prófi frá Manhattan School of Music árið 1998 og Masters-prófi frá Juilliard-skólanum í New York árið 2000. Steinunn Birna Ragnarsdóttir píanóleikari verður gestur tónleikanna. Hún hefur komið víða við á tónlistarsviðinu og meðal annars verið listrænn stjórnandi „Reykholtshátíðar“ frá stofnun hennar árið 1997. Eins og áður sagði hefjast tónleikarnir klukkan 17.00 og verða þeir í Listasafni Íslands. Efnisskrá: Wolfgang Amadeus Mozart: Píanókvartett í Es-dúr K493 Johannes Brahms: Píanókvartett í c-moll op. 60