13. apríl 2007
Guðný leikur tvö glansnúmer 20. apríl
Saga Sinfóníuhljómsveitar Íslands síðustu áratugi er að miklu leyti líka saga Guðnýjar Guðmundsdóttur fiðluleikara. Hún er að mörgu leyti ásjóna Sinfóníuhljómsveitar Íslands og í þau 33 ár sem hún hefur verið konsertmeistari hefur hún leikið einleik með hljómsveitinni svo oft að varla verður tölu á komið. Guðný verður einmitt í hlutverki einleikarans á tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar föstudaginn 20. apríl næstkomandi, og mun þá leika tvö þekkt glansnúmer fiðlubókmenntanna. Annars vegar Rómönsu eftir Dvorák, yndilsegt verk með ljúfsárum og tregafullum hendingum sem gera þó heilmiklar kröfur til einleikarans og hins vegar Tziganae eftir Ravel þar sem höfundurinn þykir nota hverja einustu tæknibrellu sem fyrirfinnst í fiðlubókmenntunum auk þess sem hann bætti við nokkrum nýjum í leiðinni. Guðný Guðmundsdóttir tók við stöðu 1. konsertmeistara Sinfnfóníuhljómsveitar Íslands haustið 1974. +++Í þeim tíðaranda sem þá ríkti var það mikil áskorun fyrir 26 ára gamla stúlku að þiggja eina af æðstu stöðum sem hljóðfæraleikara á Íslandi býðst og margir renndu hýru auga til á þeim tíma. Guðný sýndi þó fram á það að hún var fullfær um að gegna stöðunni og hefur æ síðan farið fyrir sínum flokki af myndugleik og öðlast mikla virðingu hér heima sem erlendis fyrir störf sín. Til marks um áhrif hennar og framlag til íslenskrar tónmenningar þá hefur hún auk starfa sinna með hljómsveitinni veirð lærimeistari fjölda efnilegra fiðluleikara, þar á meðal Sigrúnu Eðvaldsdóttur sem deilir stöðu konsertmeistara með Guðnýju, ásamt fjölda annarra núverandi fiðluleikara Sinfóníuhljómsveitarinnar. Unnendur góðrar tónlistar ættu ekki að láta sig vanta á þessa tónleika en auk einleiks Guðnýjar verða á dagskránni tvö önnur verk, forleikurinn úr Óperu Rossinis, La gazza ladra og sinfónía nr.1 eftir Sergej Rhakmanínov. Hljómsveitarstjóri er Owain Arwell Hughes en hann er einn virtasti stjórnandi Bretlandseyja og hefur verið gerður að heiðursdoktor við ekki færri en 7 tónlistarháskóla. Þess má geta að hér er um frumflutning á sinfóníu Rakmaninoffs að ræða. Í efnisskrá tónleikanna greinir Árni Heimir Ingólfsson frá því að frumflutningur verksins á sínum tíma hafi verið áfall fyrir tónskáldið. Hljóðfæraleikarar voru illa undirbúnir og hljómsveitarstjórinn var undir áhrifum áfengis. Verkið fékkk hræðilegar móttökur og Rakmaninoff horfðist í augu við það að hann mundi aldrei semja framar. Hann stóð sem betur fer ekki við það en 1. sinfóníuna heyrði hann aldrei aftur flutta. En að Rakmaninoff látnum komu hljóðfæraraddirnar í leitirnar og þannig var hægt að púsla raddskránni saman á ný. „Síðari frumflutningur“ sinfóníunnar fór fram í Moskvu 1945 við mikinn fögnuð, og var raunar upptakturinn að því að verk Rakmaninoffs fóru að heyrast mun oftar í Sovétríkjunum en verið hafði fram að því. Tónleikarnir fara fram í Háskólabíói föstudaginn 20. apríl og hefjast þeir klukkan 19.30.