25. apríl 2007
Loksins fá íslenskir áheyrendur að hlýða á óperu Hafliða
Þegar óperan Viröld fláa (Die Wält der Zwischenfälle) eftir Hafliða Hallgrímsson var frumsýnd í borgarleikhúsinu í Lübeck í febrúar 2004 var henni fagnað af gagnrýnendum sem veigamiklu listaverki sem "gæti orðið á óperusviðinu það sem Beðið eftir Godot er í leikhúsheiminum - sígilt absúrdverk." Tónlist Hafliða, "blæbrigðarík, þétt, litrík, heit og meira að segja fyndin", þótti smellpassa við sótsvartan húmor óperutextans, sem er sóttur í hárbeittar örsögur rússneska absúrdmeistarans Daniil Kharms (1905-42). Óperan hefur einnig verið sýnd í Vín við góðar undirtektir. Nú fá Íslendingar loks tækifæri til að kynnast verkinu í tónleikaflutningi Sinfóníuhljómsveitarinnar og átta einsöngvara en þeir eru eftirfarandi: Hanna Dóra Sturludóttir og Merryn Gamba sópran,Clemens Löschmann og Tom Raskin, tenór, Sebastian Noack og Jeremy Carpenter baritón og Christian Tschelebiew og Davíð Ólafsson bassi. +++ Kveikjan að óperunni var áhugi nokkurra enskra, þýskra og austurrískra leikhúsmanna á verki Hafliða Mini Stories eða Örsögum, sem einnig eru byggðar á textum Kharms og hafa m.a. verið sýndar hér á landi við góðan orðstír. Fyrir beiðni Theater Lübecks og óperuhópsins NetZZeit í Vín þróaði Hafliði Örsögur áfram og úr varð verk sem kallað hefur verið svar óperunnar við Beðið eftir Godot. Daníil Kharms var uppi á árunum 1905-42 og þykir nú einn fremsti absúrdhöfundur síðustu aldar. Afar lítið var gefið út eftir hann á meðan hann lifði. Hann þurfti að þola ofsóknir Stalíntímans og lést að lokum í sjúkrahúsfangelsi á meðan á umsátri Þjóðverja um Leningrad stóð. Textar Kharms eru stuttar hugleiðingar um fáránleika hins daglega lífs og einkennast af gríni, grimmd og alvöru. Í óperu Hafliða er rauður þráður spunnin í kringum fimmtán af sögum Kharms með því að láta höfundinn birtast á sviðinu og hrærast í fjarstæðukenndum heimi sögupersóna sinna. Hafliði Hallgrímsson hefur verið búsettur í Edinborg síðan á áttunda áratugnum. Hann var um árabil vel metinn sellóleikari en sneri sér að fullu að tónsmíðum árið 1983. Fyrsta verk hans sem vakti alþjóðlega athygli var fiðlukonsertinn Poemi, en fyrir hann hlaut Hafliði Tónskáldaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1986. Fyrr í vetur hlaut sellókonsert sem Hafliði samdi fyrir norska sellósnillinginn Truls Mørk frábæra dóma á Bretlandseyjum og í Noregi. Einnig má geta þess að geisladiskur með hinu rómaða tónverki Passíu er nú dreift alþjóðlega af hinu þekkta finnska útgáfufyrirtæki Ondine. André de Ridder er einn þeirra ungu hljómsveitarstjóra sem hefur vakið hvað mesta eftirtekt á undanförnum árum hjá unnendum ferskra og nýrra strauma á tónlistarsviðinu. Hann hefur jöfnum höndum sinnt hefðbundnum óperuverkum tónbókmenntanna auk þess að takast á við ný verk af kjarki og ástríðu. Ridder er Berlínarbúi en nam í Vínarborg undir leiðsögn Leopold Hager og Sir Colin Davis. Lengi hafa menn velt því fyrir sér hvað vit og heimska eru. Og þá kemur mér atvik í hug. Þegar frænka mín gaf mér skrifborð sagði ég við sjálfan mig: "Nú sest ég við þetta skrifborð og fyrsta hugmyndin sem ég bý til við þetta skrifborð verður alveg einstaklega viturleg." En ég gat ekki hugsað upp neina hugmynd sem væri sérstaklega viturleg. Þá sagði ég við sjálfan mig: "Gott og vel. Fyrst mér tókst ekki að fá einstaklega viturlega hugmynd þá set ég einhverja afspyrnu heimskulega hugmynd á blað." En ég gat heldur ekki látið mér koma neitt framúrskarandi heimskulegt í hug. Það er afskaplega erfitt að kom sér út á ystu nöf. Það er auðveldara að halda sig á miðjunni. Miðjan krefst ekki neinna átaka. Miðjan er jafnvægið. Þar fer engin barátta fram. Ættum við kannski að koma okkur úr jafnvægi? (Úr þýðingum Árna Bergmanns) Tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Listahátíð, föstudaginn 18. maí 2007, kl 19.30