EN

16. júlí 2010

Tónverk til flutnings við opnun Hörpu

 

Tónlistarhúsið Harpa og Sinfóníuhljómsveit Íslands efna til samkeppni um nýtt tónverk sem frumflutt verður við opnunarhátíð Hörpu í maí 2011.

 

Miðað er við að tónverkið sé 5-10 mínútur að lengd og skal það samið fyrir sinfóníuhljómsveit (að hámarki 3.3.3.3. 4.3.3.1, 3slv + pákur, píanó/selesta, harpa, strengir). Verkið skal hæfa tilefninu og er mælst til þess að höfundar notfæri sér hin ýmsu fjölbreyttu litbrigði sinfóníuhljómsveitarinnar.

 

Verðlaunafé er kr. 1.000.000.

 

Raddskrám skal skila í fimm eintökum á skrifstofu Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Háskólabíói við Hagatorg, í síðasta lagi klukkan 12 á hádegi föstudaginn 7. janúar 2011, merkt „Tónsmíðasamkeppni“. Verk sem ekki hafa borist fyrir tilskilinn skilafrest eru ekki gjaldgeng í keppnina. Raddskrár skulu einungis merktar með dulnefni. Nafn höfundar skal fylgja með í einu lokuðu umslagi, merktu dulnefninu.

 

Fimm manna dómnefnd er skipuð fulltrúum Listráðs Hörpu, Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Tónskáldafélags Íslands, Félags tónskálda og textahöfunda og Félags íslenskra hljómlistarmanna og velur hún verkið sem ber sigur úr býtum. Úrslit verða kunngerð á tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar á Myrkum músíkdögum, 27. janúar 2011.

 

Sigurvegari keppninnar skuldbindur sig jafnframt til að skila öllum hljóðfæraröddum fullfrágengnum til skrifstofu SÍ eigi síðar en 15. mars 2011.

 

Reglur keppninnar er hægt að nálgast á heimasíðum Hörpu og Sinfóníuhljómsveitar Íslands, www.harpa.is, og www.sinfonia.is.

  

Reglur:

 

1. Miðað er við að tónverkið sé 5-10 mínútur að lengd.

 

2. Tónverkið skal samið fyrir sinfóníuhljómsveit, að hámarki eftirfarandi stærð:

3.3.3.3. 4.3.3.1.

3 slv. + pákur

píanó/selesta

harpa

strengir að hámarki 14.12.10.8.6.

 

3. Verkið skal hæfa tilefninu og er mælst til þess að höfundar notfæri sér hin ýmsu fjölbreyttu litbrigði sinfóníuhljómsveitarinnar.

 

4. Umsóknin skal samanstanda af:

a) fimm raddskrám sem einungis skulu merktar með dulnefni. Nafn höfundar komi hvergi fram á raddskránum.

b) einu lokuðu umslagi, merktu dulnefninu, sem inniheldur nafn höfundar. 

 

5. Umsóknum skal skila í fimm eintökum á skrifstofu Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Háskólabíói við Hagatorg, í síðasta lagi klukkan 12 á hádegi föstudaginn 7. janúar 2011, merkt „Tónsmíðasamkeppni“. Verk sem ekki hafa borist fyrir tilskilinn skilafrest eru ekki gjaldgeng í keppnina.

 

6. Fimm manna dómnefnd er skipuð fulltrúum Listráðs Hörpu, Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Tónskáldafélags Íslands, Félags tónskálda og textahöfunda og Félags íslenskra hljómlistarmanna. Dómnefndin velur verkið sem ber sigur úr býtum. Ekki er hægt að áfrýja niðurstöðu dómnefndar.

 

7. Úrslit dómnefndar verða kunngerð á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Myrkum músíkdögum, 27. janúar 2011.

 

8. Sigurvegari keppninnar skuldbindur sig til að skila öllum hljóðfæraröddum fullfrágengnum til skrifstofu SÍ eigi síðar en 15. mars 2011.

 

9. Sigurvegari keppninnar skuldbindur sig til að vera viðstaddur frumflutning verksins við opnunarhátíð Hörpu föstudaginn 13. maí og æfingar í aðdraganda tónleikanna.

 

Mikilvægar dagsetningar:

föstudagur 7. janúar 2011                  skilafrestur á raddskrám í keppni, kl. 12 á hádegi

fimmtudagur 27. janúar 2011           tilkynnt um sigurvegara á tónleikum SÍ

þriðjudagur 15. mars 2011                 skil á hljóðfæraröddum til SÍ

föstudagur 13. maí 2011                      frumflutningur við opnunarhátíð Hörpu