EN

6. september 2017

Nýju starfsári ýtt úr vör

Arna Kristín Einarsdóttir, framkvæmdarstjóri SÍ

Sinfóníuhljómsveit Íslands ýtir nú nýju starfsári úr vör. Aðdragandi hvers starfsárs er langur; hljómsveitarstjórar og einleikarar eru bókaðir langt fram í tímann og fara á milli sinfóníuhljómsveita sem mynda flókið samstarfsnet um heim allan. Sinfóníuhljómsveit Íslands er hluti af þessu alþjóðlega samstarfsneti. Sinfóníuhljómsveitin hefur frá upphafi verið gluggi út í heim, gefið okkur hlutdeild í hinu vestræna tónlistarlífi og þannig gert okkur að heimsborgurum.

Síðustu misseri hafa fleiri og fleiri íslenskir tónlistarmenn tengst hinu alþjóðlega neti tónlistarinnar. Íslensk tónlist og tónlistarfólk hefur náð verðskuldaðri athygli. Virtar menningarstofnanir á borð við Fílharmóníuhljómsveit Los Angeles og hið glæsilega tónlistarhús Elbphilharmonie

í München hafa staðið fyrir íslenskum tónlistarhátíðum. Sinfóníuhljómsveit Íslands var boðið að halda tónleika á áskriftarröð Gautaborgarsinfóníunnar og fékk afar góðar viðtökur og lofsamlega dóma í sænskum fjölmiðlum.

Umfjöllun erlendra fjölmiðla í tengslum við hina íslensku tónlistarútrás er öll á sama veg. Spurt er hvernig smáþjóð sem telur aðeins 330.000 manns geti átt tónlistarmenn og sinfóníuhljómsveit á heimsmælikvarða. Svarið liggur ekki á lausu fremur en í öðrum greinum þar sem Íslendingar geta státað af framúrskarandi árangri. Sinfóníuhljómsveit Íslands á hins vegar sinn þátt í framúrskarandi árangri íslenskra tónlistarmanna. Hljómsveitin er þeirra heimahöfn – tónlistarmenn á borð við Önnu Þorvaldsdóttur, Víking Heiðar Ólafsson og Daníel Bjarnason hafa öll stigið sín fyrstu skref á vettvangi Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Þetta starfsár mun tengingin við umheiminn birtast með ýmsu móti. Við fáum til samstarfs við okkur fjölda hljómsveitarstjóra og einleikara, til dæmis rússneska stjórnandann Dima Slobodeniouk og hollenska fiðlusnillinginn Janine Jansen.

Við munum spegla hátíð Los Angeles-fílharmóníunnar með okkar eigin hátíð þar sem bandarísk tónlist verður í forgrunni, flytjum verk eftir rússneska tónskáldið Sofiu Gubaidulinu en einnig tónlist eftir Mozart og Beethoven, Shostakovitsj og Rakhmanínov. Við erum líka að undirbúa tónleikaferð til Japans og eru tónleikar okkar með Vladimir Ashkenazy og Nobu 20. apríl liður í því. Gautaborgarsinfónían kemur í vináttuheimsókn til okkar í Hörpu 18. mars og þannig má lengi telja.

En Sinfóníuhljómsveit Íslands sinnir einnig okkar íslenska tónlistararfi. Við munum flytja og hljóðrita Eddu ll eftir Jón Leifs ásamt Schola cantorum, frumflytja ný íslensk tónverk, bjóða upp á öflugt fræðslustarf og leika stórt hlutverk í hátíðarhöldum þjóðarinnar í tengslum við 100 ára fullveldisafmæli Íslands.

Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur þannig áfram að sinna upprunalegu hlutverki sínu, að fóstra íslenska tónlist og tónlistarlíf, en hún færir Ísland líka nær umheiminum, setur okkur í alþjóðlegt samhengi og veitir okkur aðgengi að fegurstu og merkustu listaverkum sem menningararfur heimsins geymir.

Njótið vel.