EN

5. febrúar 2018

Nýr diskur með verkum eftir sænska tónskáldið Dag Wirén

Út er kominn nýr hljómdiskur með hljómsveitarverkum sænska tónskáldsins Dag Wirén í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Diskurinn er gefinn út af breska útgáfufyrirtækinu Chandos og kom út í upphafi þessa mánaðar. Upptökur fóru fram í Eldborg í júní 2017 undir stjórn Rumon Gamba sem var aðalstjórnandi hljómsveitarinnar frá 2002 til 2010.

Tónsmíðar Dags Wirén voru undir sterkum áhrifum frá Stravinskíj og Poulenc, hann samdi létta og glaðværa músík með hrynrænni spennu. Á disknum má meðal annars heyra Serenöðu fyrir strengi, sem er hans þekktasta verk, Divertimento, Sinfóníu í C-dúr og og Sinfóníu nr. 3 sem er glæsileg tónsmíði en ber þó dekkri blæ en hin verkin enda samin meðan á heimsstyrjöldinni síðari stóð; þar má greina áhrif Sibeliusar og jafnvel á köflum Shostakovitsj.

Von er á disknum til landsins í næstu viku og verður hann til sölu í Smekkleysu, hljómplötuverslun við Laugarveg, Epal í Hörpu og víðar. Hægt er að panta diskinn á netinu og hlusta á hann í heild sinni á Spotify.