EN

22. janúar 2021

Occurrence – nýr diskur með íslenskum hljómsveitarverkum

Út er kominn nýr diskur, Occurrence, sem er þriðji diskurinn í samstarfi Sinfóníuhljómsveitar Íslands og bandarísku útgáfunnar Sono Luminus, þar sem hljómsveitin flytur ný íslensk hljómsveitarverk undir stjórn Daníels Bjarnasonar. Diskurinn hefur þegar fengið frábæra dóma í heimspressunni.

Diskurinn Recurrence kom út árið 2018 og Concurrence árið 2019 og fengu báðir diskarnir frábærar viðtökur og voru Daníel Bjarnason hljómsveitarstjóri og Sinfóníuhljómsveit Íslands tilnefnd til Grammy-verðlauna á dögunum í flokknum Besti hljómsveitarflutningur (Best Orchestral Performance) fyrir Concurrence.

Occurrence er á leiðinni til landsins en hægt er að panta hann í forsölu hér á vef Smekkleysu.

Hlustaðu á Occurrence á Spotify.

Á nýja disknum Occurrence má finna ný íslensk hljómsveitarverk eftir nokkur af okkar fremstu tónskáldum. Nýjan fiðlukonsert eftir Daníel Bjarnason með Pekka Kuusisto í einleikshlutverki, Lendh eftir Veronique Vöku, Í sjöunda himni eftir Hauk Tómasson og Flutter eftir Þuríði Jónsdóttur með Mario Caroli flautuleikara í einleikshlutverki. Á disknum má einnig finna Adagio eftir Magnús Blöndal Jóhannsson. Verkin voru tekin upp í Hörpu undir stjórn Daníels Bjarnasonar, en hann gegnir stöðu aðalgestastjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Ég vil hrópa húrra fyrir öllu teyminu hjá Sono Luminus fyrir þeirra einstöku galdra, fyrir öllum kollegum mínum, tónskáldunum, sem settu saman þessa glæsilegu tónlist og svo auðvitað Sinfó og sólistunum sem tóku þessu verkefni opnum örmum og lögðu sig fram við að gera þetta sem allra best. Ég vona að þessar upptökur finni leið sína að eyrum forvitinna hlustenda víða um heim.

Segir Daníel Bjarnason í tilefni af útgáfunni.

Concurrence og Recurrence á Spotify.

Occurrence gefur fyrri diskunum tveimur, sem báðir hafa verið stórkostlegir, ekkert eftir. Samvinna hljómsveitarinnar við Sono Luminus, Daníels Bjarnasonar og fjölda íslenskra tónskálda og einleikara hefur leitt af sér einstakar upptökur á flutningi 14 nýrra íslenskra tónverka sem vakið hefur mikla athygli, nú síðast með tilnefningu til Grammy-verðlauna. Við vonum svo sannarlega að þessi þríleikur sé aðeins upphafið að áframhaldandi samstarfi með það að markmiði að efla og vekja athygli á íslensku tónlistarlistalífi um allan heim.

Segir Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Plöturnar eru teknar upp í hringómi (e. surround sound) og í upptökunum var ný uppstilling á hljómsveitinni sérstaklega valin fyrir hvert einasta verk sem best hentaði hljóðheimi þess. Upplifunin verður því sérlega áhrifarík þar sem tónlistin er tekin upp í einskonar þrívídd og hlustandinn heyrir tónlistina allt um kring. Upptökustjóri var Grammy-verðlaunahafinn Daniel Shores og hljóðmeistari var Dan Merceruio.

80538852_2883088191715226_851272430851719168_o

Í upptökunni var hljómsveitinni raðað í hring 
og Daníel Bjarnason hljómsveitarstjóri staðsettur í hljómsveitinni miðri. 

Diskurinn Occurence er á leiðinni til landsins og verður fáanlegur í verslunum Smekkleysu og 12 tónum.