EN

1. janúar 2018

Recurrence einn af bestu diskum ársins 2017 á vef BBC

Frábærar umsagnir á árslistum erlendra tónlistargagnrýnenda

Geisladiskurinn Recurrence, þar sem Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur ný íslensk tónverk undir stjórn Daníels Bjarnasonar, er einn af bestu diskum ársins 2017 samkvæmt mati BBC Culture og fleiri álitsgjafa um tónlist. Á disknum, sem kom út í apríl síðastliðnum, hljóma verk eftir fimm tónskáld: Önnu Þorvaldsdóttur, Daníel Bjarnason, Hlyn A. Vilmarsson, Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur og Þuríði Jónsdóttur.

Diskurinn hefur hlotið afar lofsamlega dóma gagnrýnenda og var nýverið valinn einn af fimm bestu diskum ársins að mati Christian Blauvelt, menningarritstjóra BBC Culture. Hann segir í umsögn sinni á vefsíðu BBC að Ísland sé í miðri „endurreisn á sviði klassískrar tónlistar“ og að diskurinn sýni hvílíku hæfileikafólka eyþjóðin geti státað af.

Diskurinn var einnig valinn einn af 10 bestu diskum ársins á tónlistarvefsíðunni Second Inversion, en þar sagði gagnrýnandinn Maggie Molloy að hvert verk væri eins og „dásamlegt óhlutbundið landslag í tónlist“ og að áhrifin væru einstök upplifun áferðar, blæbrigða og lita í tónlistinni. Þá var diskurinn efstur á blaði yfir bestu diska ársins í áramótauppgjöri Naxos Music Library en neðar í þeirri upptalningu var meðal annars að finna diska með rússneska barítónsöngvaranum Dmitri Hvorostovsky og skoska slagverksleikaranum Evelyn Glennie.

Recurrence er fyrsti hljómdiskur af þremur sem bandaríska forlagið Sono Luminus gefur út í samvinnu við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Næsti diskur verður hljóðritaður í febrúar og þar hljóma m.a. verk eftir Hauk Tómasson, Pál Ragnar Pálsson og Magnús Blöndal Jóhannsson.