EN

28. október 2021

Sigurvegarar í einleikarakeppni SÍ og LHÍ

Á hverju ári heldur Sinfóníuhljómsveit Íslands í samstarfi við Listaháskóla Íslands einleikarakeppni sem er opin öllum tónlistarnemum á háskólastigi, óháð því hvaða skóla þeir sækja. Í keppninni flytur hver nemandi flytur hálftíma dagskrá með verkum að eigin vali. Sigurvegarnir koma fram í einleikshlutverki með hljómsveitinni á tónleikunum Ungir einleikarar í janúar.

Í ár fór lokaumferð einleikarakeppninnar fram föstudaginn 22. október í Norðurljósum í Hörpu og voru átta tónlistarnemar í úrslitum af þeim 22 sem upphaflega höfðu skráð sig til leiks. Í dómnefnd sátu Anna-Maria Helsing, hljómsveitarstjóri, Árni Heimir Ingólfsson, listrænn ráðgjafi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Joseph Ognibene, hornleikari, Greta Salóme Stefánsdóttir, fiðluleikari og Hjördís Elín Lárusdóttir, sópransöngkona.

Sigurvegarar keppninnar eru að þessu sinni:

Þórgunnur Anna Örnólfsdóttir, söngur
Birkir Örn Hafsteinsson, klarinett 
Ingibjörg Ragnheiður Linnet, trompet 
Hanna Ágústa Olgeirsdóttir, söngur 

Tónleikarnir Ungir einleikarar fara fram fimmtudaginn 13. janúar kl. 19:30. Smelltu hér til að lesa nánar um tónleikana.