EN

8. ágúst 2022

Sinfónían á Menningarnótt 2022

Á Menningarnótt í Reykjavík býður Sinfóníuhljómsveit Íslands á tvenna tónleika. Aðgangur á tónleikana er ókeypis, hægt er að sækja miða á sinfonia.is eða í miðasölu Hörpu á tónleikadegi frá kl. 11.00. Öll eru velkomin á meðan húsrúm leyfir. Hljómsveitarstjóri er Kornilios Michaildis. 

UNDUR JARÐAR MEÐ STJÖRNU-SÆVARI KL. 15:00

Á Menningarnótt verður haldið í magnað ferðalag í tali og tónum þar sem undur veraldar eru meginstefið. Gestir fá að kynnast töfrum jarðar og alheimsins undir leiðsögn StjörnuSævars og hlýða á stórbrotin og litrík tónverk sem skírskota til fyrirbæra úr náttúrunni. Haldið verður aftur í tímann þegar jörðin varð til og litið á eld og ís, höf og eyðimerkur, veðrið, lífið sjálft og hvernig við tengjumst þessu öllu. Meðal annars hljóma verk eftir Richard Strauss, John Williams og Wolfgang Amadeus Mozart. Sævar Helgi er landsþekktur fyrir þekkingu sína og ástríðu fyrir himingeimnum.

MARAÞONTÓNLEIKAR KL. 17:00

Á seinni tónleikunum á Menningarnótt kynnir Jón Jónsson klassíska hlaupalagalistann með dyggri aðstoð hljómsveitarinnar en Reykjavíkurmaraþon verður hlaupið í 39. sinn þennan dag. Margir meðlimir Sinfóníuhljómsveitar Íslands hafa tekið þátt í hlaupinu undanfarin ár og fjölmargir hlauparar eru dyggir áheyrendur sinfónískrar tónlistar. Leikin verður fjörmikil og hressileg tónlist til heiðurs þeim sem lokið hafa hlaupi þennan dag – en einnig öllum hinum sem fylgdust með af hliðarlínunni og hvöttu sitt fólk til dáða. Þetta verða bráðskemmtilegir tónleikar sem öll fjölskyldan getur notið saman og hver veit nema að Jón Jónsson taki einnig lagið með stærstu hljómsveit landsins.