EN

8. ágúst 2022

Ávarp framkvæmdastjóra

Kæru tónleikagestir.

Framundan er takmarkalaust starfsár Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Við hlökkum mikið til að taka aftur á móti ykkur öllum í tónleikasal þar sem við getum notið tónlistar saman, séð gleðina í andlitum annarra og rætt við þá sem sitja næst okkur. Að sækja tónleika snýst nefnilega ekki bara um að hlusta á tónlistina sjálfa - þótt það sé tilefnið - heldur einnig að njóta hennar með öðrum. Eftirvæntingin fyrir komandi starfsári hefur því sjaldan verið meiri. 

Á nýju starfsári bjóðum við upp á litríka og margbreytilega dagskrá; fjölmarga tónleika þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Sinfóníuhljómsveit Íslands getur brugðið sér í ýmis hlutverk. Í áskriftaröðunum fáum við heimsklassa einleikara, einsöngvara og hjómsveitarstjóra til liðs við hljómsveitina. Við fáum framúrskarandi unga listamenn til samstarfs þvert á stíltegundir og stöndum fyrir metnaðarfullu fræðslustarfi sem er svo sannarlega mikilvægt. Við stöndum fyrir opnum barnastundum, skólatónleikum og tónleikum fyrir einstök börn, auk þess sem við starfrækjum akademíur fyrir hljómsveitarstjóra, tónskáld og hljóðfæraleikara framtíðarinnar. Allt þetta starf leiðir okkur inn í bjarta framtíð þar sem gróska og fjölbreytileiki eru í fyrirrúmi. Á starfsárinu munum við halda í langþráðar tónleikaferðir innanlands sem utan. Slíkar ferðir eru afar þroskandi fyrir vaxandi hljómsveit þar sem leikið er fyrir nýja áheyrendur við ólíkar aðstæður.

Það er einnig afar ánægjulegt að segja frá því að við höldum áfram með Grænu tónleikaröðina í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV á fimmtudagskvöldum sem gerir okkur kleift að sinna hlutverki okkar sem þjóðarhljómsveit enn betur. Það er von mín að á komandi starfsári endurnýjum við kynni við okkar mikilvæga áskrifendahóp, fáum til liðs við okkur nýja áhugasama áheyrendur og höldum áfram að miðla af metnaði tónlist fortíðar og nútíðar. Sjáumst á tónleikum!