EN

16. febrúar 2021

Sinfónían skrifar undir Keychange-skuldbindingu

Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur skrifað undir svokallaða Keychange-skuldindingu (e: The Keychange Pledge) en tilgangur verkefnisins er að auka sýnileika kvenna í tónlistarlífinu. Sérlegir sendiherrar verkefnisins eru Anna Þorvaldsdóttir, staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands, og Eliza Reid forsetafrú.

Iceland Airwaves og STEF leiða Keychange-hreyfinguna á Íslandi en ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands hafa fjórtan íslenskar stofnanir og samtök nú undirritað Keychange-skuldbindinguna, Iceland Airwaves, LungA, FTT, FÍH, Gaukurinn, Harpa, KÍTÓN, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Tónlistarborgin Reykjavík, ÚTÓN, Norrænir músíkdagar, Þjóðleikhúsið, Íslenska óperan, Inni Music og STEF. Þar með skuldbinda þessi samtök sig til kynjajafnréttis, m.ö.o. stefna að því að hlutur kvenna og annara kyngerfa verði jafn á við hlut karla.

Nýi Keychange-sendiherrann, Eliza Reid, sagði við þetta tilefni: 

Tónlist og listir almennt eru eins konar sálargluggi samfélagsins. Mikilvægt er því að listalífið endurspegli mannlífið og fjölbreyttan reynsluheim þess. Framtak Keychange finnst mér lofsvert, því það felur í sér afdráttarlausa hvatningu til allra sem starfa í tónlistargeiranum, í þá veru að hafa kynjajafnrétti og margbreytileika ávallt í hávegum. Jafnrétti kemur ekki af sjálfu sér og það næst ekki fram með vel meinandi deilingum eða meðmælum á samfélagsmiðlum, heldur þarf samstillt átak, viðleitni, viðvarandi skuldbindingu og áræðni. Eða eins og segir í söngtexta jafnréttissinna á síðustu öld: „Ég þori, get og vil.“

Nýi Keychange sendiherrann Anna Þorvaldsdóttir sagði við þetta tilefni: 

“Mér er það mikil ánægja að verða hluti af Keychange og að taka þátt í þessu mikilvæga framtaki til eflingar og hvatningar í hinum mörgu geirum tónlistar. Það er satt að segja nánast ótrúlegt að árið 2021 sé enn ástæða til að spyrja spurninga á borð við ‘hvernig það sé að vera kven-tónskáld' þar sem tónsköpun þekkir hvorki kyn né aðra alhæfandi staðla sem ekki snúa að tónlistinni sjálfri. Það að þurfa að efla, jafna út og fyllilega meðtaka fjölbreytileikann — svo óþarft sé að tiltaka staðla sem ekki snúast um tónlist — er markmið sem ég trúi að verði í komandi framtíð framandi minning.

STEF hefur nú í tilefni af þessari íslensku Keychange viku opinberað tölfræði sem sýnir að árið 2012 voru aðeins 17,6% meðlima STEFs konur, en hlutfall þeirra var komið í 19,8% árið 2020. Nýlega setti STEF á stofn jafnréttisnefnd, sem hleypti af stokkunum n.k. leiðbeinenda-prógrammi (e. mentor program), sem ætlað er til þess að aðstoða kvenhöfunda við að fóta sig og koma tónlist á framfæri. Þá mun STEF einnig styrkja kvenhöfunda til þátttöku í alþjóðlegum lagasmíðabúðum í Bandaríkjunum.

Málstofa á Íslandi um kynjað tungutak

Fimmtudaginn 18. febrúar klukkan 12:30 stendur Iceland Airwaves og Keychange fyrir rafrænni málstofu um kynjað tungutak (e. gendered language), tjáningu og inngildingu (e. inclusion). Þar verður m.a. fjallað um áhrif orða á borð við “þeir” og “tónlistarmenn” hvernig tungumál hefur áhrif á hugsunarhátt og upplifun í tónlistargeiranum og víðar. Málstofan fer fram á ensku og meðal þátttakenda verður Eliza Reid, forsetafrú, Andri Snær, rithöfundur, Sóley Tómasdóttir, ráðgjafi og Ragna Kjartansdóttir, rappari. Andie Sophie Fontaine stýrir umræðunni. Fylgstu með málstofunni í gegnum Facebook-síðu Iceland Airwaves hérna.