EN

16. október 2018

Sinfóníuhljómsveit Íslands kallar eftir íslenskum tónverkum

Sinfóníuhljómsveit Íslands í samstarfi við RÚV efnir til demó-hljóðritana á íslenskri tónlist í Hörpu dagana 11. og 12. júní 2019. Kallað er eftir íslenskum hljómsveitarverkum sem ekki hafa verið flutt opinberlega áður. Tekin verða upp demó sem geta gagnast tónskáldum til að fá verkið flutt opinberlega síðar meir. Ekki verður um eiginlegan flutning, útgáfu eða opinbera spilun í útvarpi að ræða. Hér er því ekki um frumflutning að ræða, en er þó hugsað fyrir verk sem hafa ekki verið flutt. Meginhugmyndin er að demóupptakan geti gagnast tónskáldum við að fá verkið flutt síðar. Um er að ræða þrjár æfingar hljómsveitarinnar, alls 9 klukkustundir. Hljómsveitarstjóri verður Bjarni Frímann Bjarnason, aðstoðarhljómsveitarstjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Skilyrði fyrir þátttöku 

  • Verkið skal ekki samið fyrir stærri hljómsveit en Sinfóníuhljómsveit Íslands, þ.e.a.s. 3.3.3.3. 4.3.3.1. pákur 3slv hp pno/cel str (12/10/8/6/4).
  • Skilafrestur til þátttöku er til kl. 12 á hádegi föstudaginn 1. febrúar 2019. Raddskrá skal skilað í einu eintaki sem aðeins er merkt með heiti verks og dulnefni höfundar. Með raddskrá skal fylgja lokað umslag sem merkt er sama dulnefni og stendur í raddskrá. Í umslaginu skal vera blað með nafni höfundar, símanúmeri og netfangi. Tónverk skulu berast Sinfóníuhljómsveit Íslands, b/t Árna Heimis Ingólfssonar, Hörpu, Austurbakka 2, 101 Reykjavík. Einnig skal senda raddskrá á pdf-formi á netfangið arniheimir@sinfonia.is og skal þess gætt að hvergi í skjalinu sjálfu komi fram nafn höfundar.
  • Með því að senda inn verk skuldbindur tónskáld sig til þess, verði verk þess valið til hljóðritunar, að afhenda nótnasafni SÍ allar hljómsveitarraddir og raddskrá í endanlegri mynd eigi síðar en kl. 12 á hádegi þriðjudaginn 23. apríl 2019. Engar undantekningar verða veittar frá þessari kröfu; tónverk sem ekki hafa borist nótnasafni SÍ fyrir ofangreindan frest verða ekki hljóðrituð. Hægt er að senda raddir og raddskrá á rafrænu formi.
  • Með því að senda inn verk skuldbindur tónskáldið sig til að vera viðstatt æfingu og hljóðritun á verki sínu í Hörpu og vera hljómsveitarstjóra og upptökustjóra innan handar eins og þörf krefur. 

Dómnefnd og val á verkum

Þriggja manna dómnefnd skipa eftirfarandi: Anna Þorvaldsdóttir staðartónskáld SÍ (formaður), Bjarni Frímann Bjarnason aðstoðarhljómsveitarstjóri SÍ, Daníel Bjarnason.

Miðað er við að valin verði sex verk til hljóðritunar. Dómnefnd getur einnig valið færri verk en þetta, og getur hún þá gert tillögu um hljóðritanir á eldri íslenskum tónverkum til viðbótar við hin nýju sem valin eru. 

Tilkynnt verður hvaða verk verða valin til hljóðritunar eigi síðar en 15. mars 2019.