EN

29. október 2019

Skapað af gleði og ástríðu

Viðtal við Daníel Bjarnason og Önnu Þorvaldsdóttur

Tónskáldin Daníel Bjarnason og Anna Þorvaldsdóttir gegna bæði stöðu hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands, Anna er á öðru ári sínu sem staðartónskáld hljómsveitarinnar og Daníel tók við stöðu aðalgestastjórnanda sveitarinnar í upphafi starfsársins en á árunum 2015-18 var hann staðarlistamaður hennar. Bæði munu þau eiga verk á tveimur tónleikaferðum hljómsveitarinnar, til Þýskalands og Austurríkis í nóvember og til Bretlands í febrúar 2020. Daníel mun auk þess stýra hljómsveitinni í tónleikaferð hennar til Þýskalands og Austurríkis. 

Hljómsveitin hitar upp fyrir tónleikaferðina til Þýskalands og Austurríkis á opnum hádegistónleikum í Eldborg fimmtudaginn 31. október kl. 11:45 og á tónleikum í Eldborg 7. og 8. nóvember kl. 19:30 með Víkingi Heiðari Ólafssyni og Daníel Bjarnasyni.

Í upphafi starfsársins voru Daníel og Anna tekin tali þar sem þau voru spurð út í tónleikaferðirnar, hlutverk sín hjá hljómsveitinni og verkefnin framundan.

Rödd nýrrar tónlistar

„Þessi staða er ákveðinn rammi utan um það samstarf sem ég hef átt við hljómsveitina,“ segir Daníel „og það er bara heiður að fá þennan titil og að þetta sé gert formlegt með þessum hætti. Ég mun vinna talsvert mikið með hljómsveitinni á þessu starfsári, stjórna tónleikum hér heima og svo fer ég með henni í tónleikaferð til Þýskalands og Austurríkis í nóvember. Svo höfum við verið að hljóðrita ný og nýleg íslensk hljómsveitarverk og einleikskonserta fyrir útgáfufyrirtækið Sono Luminus. Ein plata, sem heitir Recurrence, er komin út, en tvær aðrar líta dagsins ljós einhvern tímann á næstunni. Saman verða þær eins konar yfirlit yfir nýja íslenska hljómsveitartónlist.“ 

Anna var næst spurð að því hvernig hennar starf hefði gengið og hvort það héldist óbreytt. „Þetta hlutverk er í raun mjög mikilvægt, fyrir mér snýst það mikið um að vera rödd nýrrar tónlistar í starfi hljómsveitarinnar. Verkefnin eru mjög fjölbreytt, ég er til dæmis í verkefnavalsnefnd, ég held utan um Yrkju, starfsþróunarverkefni hljómsveitarinnar fyrir ung tónskáld, og auk þess kemur hljómsveitin að stórum pöntunum sem ég er að vinna að. Þar með er ég auðvitað líka að skrifa tónlist fyrir hljómsveitina og aðrar hljómsveitir líka. En það er mjög ánægjulegt fyrir mig að fá að taka þátt í þessu samstarfi því þetta er mikilvægt starf.“ Daníel tekur undir þetta og segir: „Ég held líka að það sé gott fyrir hljómsveitina að hafa tónskáld innan sinna raða, einhvern sem gerir meira en bara semja tónlist, til dæmis að taka þátt í hugmyndavinnu, mótun og að skapa framtíðarsýn.“

Vinsæl verk

Á tónleikaferð hljómsveitarinnar til Þýskalands og Austurríkis í nóvember 2019 verða á efnisskránni verk eftir þau bæði: Aeriality eftir Önnu og Processions, píanókonsert Daníels. Aeriality verður einnig á efnisskrá sveitarinnar í Bretlandsferð í febrúar 2020. Aðspurð um hvort ekki mætti segja sem svo að þetta væru þeirra vinsælustu verk, svöruðu þau á þessa leið. „Að minnsta kosti hvað mitt verk varðar,“ segir Anna. „Aeriality hefur verið spilað af rúmlega 30 hljómsveitum um allan heim, sem er frábært. Það er líka ofboðslega gaman að fá að fara með hljómsveitinni til Bretlands, en ég fer með í þá tónleikaferð og verið er að skipuleggja ýmsa viðburði í kringum það, tónleikakynningar, fyrirlestra og meistaranámskeið fyrir ung tónskáld.“ 

 

Aeriality eftir Önnu Þorvaldsdóttur í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Daníel segir að sennilega sé sellóverkið Bow to String hans vinsælasta verk, en margir sellóleikarar hafa flutt það víðsvegar um heiminn. „Tónleikarnir þar sem við Víkingur Heiðar frumfluttum Processions ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands í Háskólabíói árið 2009 voru hins vegar afskaplega minnistæðir. Svo lá verkið í dvala í nokkur ár en er núna að vekja athygli aftur. Það er auðvitað mikilvægt fyrir svona konserta að það séu einleikarar sem taki þá upp á sína arma og flytji, ekki bara að hljómsveitarstjórar leggi til að verkið skuli flutt.“

 

Sæunn Þorsteinsdóttir leikur Bow to string eftir Daníel Bjarnason með Sinfóníuhljómsveit Íslands

Stærsta verk Önnu til þessa

Nýtt verk eftir Önnu, AIŌN, var frumflutt í maí 2019 en verkið var pantað af Sinfóníuhljómsveitinni í Gautaborg og frumflutt af henni og Íslenska dansflokknum, en Sinfóníuhljómsveit Íslands er samstarfsaðili að verkefninu. „Þetta er stærsta hljómsveitarverk mitt til þessa,“ segir Anna, „45 mínútur af tónlist. Erna Ómarsdóttir er danshöfundur og það sem mér finnst sérlega spennandi og óvenjulegt við þetta verk er að hljómsveitin er á sviðinu með dönsurunum, en ekki ofan í gryfju eins og venjulega. Það myndar sérstaka stemningu að hljómsveitin sé ekki hulin sjónum heldur hluti af hinu sýnilega og stundum líka af hreyfingunni. Verkið er skrifað jöfnum höndum sem dansverk og svo eingöngu tónleikaverk án dansins, þannig að það mun eiga sér sitt eigið líf sem hljómsveitarverk í þremur þáttum.“ Daníel grípur inn í og spyr hvort kaflarnir standi einir og sér eða hvort flytja verði verkið í heild sinni. „Ég hafði verkið í þremur þáttum,“ svarar Anna, „og ég hugsaði með mér að það yrði að endingu hægt að spila þá staka. Til að byrja með finnst mér samt spennandi að leyfa það ekki og sjá hvað gerist. En ég er meðvituð um að þetta er langt verk og í framtíðinni mun verða hægt að spila hvern þátt stakan.“

„Galdurinn er að halda í neistann“

Að lokum eru þau spurð hvort þau hafi einhvern tímann á sínum yngri árum leyft sér að dreyma um að semja verk fyrir hljómsveitir á borð við Fílharmóníusveitir Los Angeles eða Berlínar.

Það verður stundarþögn en svo segir Daníel: „Nei, ég get ekki sagt að það hafi verið markmið mitt. Ég hugsaði eiginlega ekki út í það, þannig að í hvert skipti sem ég fæ fréttir af stórum pöntunum frá þekktum hljómsveitum þá kemur það mér alltaf jafn mikið á óvart,“ segir Daníel og hlær. Anna jánkar og segir: „Ég er alveg á því að þetta sé eitthvað sem maður getur ekki skipulagt. Það eina sem maður getur gert er bara að vinna að því sem maður hefur ástríðu fyrir og brennur fyrir í tónlistinni. Í okkar tilfellum hefur það skilað sér í því að til okkar hefur verið leitað og það er alveg stórkostlegt. En ég þorði aldrei að hugsa svo langt eða að reyna að skipuleggja það, því það er hvort eð er ekki hægt.“ Anna heldur áfram og segir: „Ég verð að skipuleggja mig vel og tek inn pantanir fimm ár fram í tímann, en það er erfitt að sjá hverju sinni hvar maður verður að fimm árum liðnum.“

Daníel skýtur því inn að hann vinni á svipaðan hátt en fimm ár séu alltof langur tími. „Ég veit,“ segir Anna, „þetta er mjög skrýtið, en til dæmis kom beiðnin um verkið sem ég var að klára, AIŌN, til mín fyrir fimm árum síðan. Auðvitað skipuleggur maður og svo þegar maður fer loks að vinna að verkinu þá mótar maður það í samræmi við það hvar maður er staddur á þeim tíma. Það er ákveðinn lúxus að geta bara tekið að sér góð verkefni, sem ég veit að ég muni hafa ástríðu fyrir að skrifa. Ég reyni að passa mig á að taka ekki of mikið að mér heldur einbeiti ég mér að einu verki í einu, því það er ekkert sem kemur í staðinn fyrir að hafa nægan tíma þegar maður semur tónlist.“ Þegar skotið er að þeim að verkin hljóti þá að kosta meira, þá hlæja þau bæði. „Einhvern veginn verður maður að lifa!“ segir Anna. „Anna er orðin rándýr,“ segir Daníel hlæjandi og heldur áfram: „Ég verð að reyna að læra af Önnu! Ég á það til að taka alltof mikið að mér en einhvern veginn gengur þetta allt upp og maður bara vonar að maður haldi heilsu og gleðinni og haldi áfram að hafa ánægju af því að skapa tónlist. Að geta verið spontant jafnvel þó maður plani langt fram í tímann.“ „Auðvitað er þetta stundum erfitt,“ segir Anna, „en þetta á heldur ekkert að vera auðvelt. Maður er náttúrulega bara manneskja, maður verður að hafa neistann og hann kemur af gleðinni og ástríðunni. Galdurinn er að geta skipulagt sína vinnu en samt haldið í þennan neista sem kviknar í hverju andartaki sköpunarinnar.“