EN

31. janúar 2023

Söfnun fyrir hljómborðsklukkuspili til minningar um Önnu Guðnýju píanóleikara

Anna Guðný Guðmundsdóttir, píanóleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands um árabil, átti sér þann draum að hljómsveitin eignaðist hljómborðsklukkuspil (Keyboard Glockenspiel/Klavierglockenspiel). Það er því afar ánægjulegt að Frank Aarnink slagverksleikari sveitarinnar ákvað að ganga í málið og fékk Vinafélag Sinfóníuhljómsveitar Íslands til samstarfs um söfnun fyrir hljóðfærinu sem verður fært hljómsveitinni að gjöf til minningar um Önnu Guðnýju.

Hljómborðsklukkuspil er skylt selestu en hefur skarpari og meiri hljóm. Hljóðfærið er til dæmis notað í Töfraflautunni eftir Mozart, La Mer eftir Debussy, Dafnis og Klóa eftir Ravel, Eldfuglinum eftir Stravinskíj og Lærisveini galdrameistarans eftir Dukas, svo nokkur verk séu nefnd. Hljómborðsklukkuspil hefur hingað til ekki verið tiltækt á Íslandi og væri því mikill fengur að gjöfinni.

Vinafélag Sinfóníuhljómsveitar Íslands leggur söfnuninni til 1.400.000 kr., Félag íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) 500.0000 kr. og Tónastöðin kr. 100.000 kr. Einnig hafa margir góðir vinir og samstarfsfólk Önnu Guðnýjar lagt söfnuninni ómetanlegt lið, má þar nefna Sigrúnu Hjálmtýsdóttur, Osmo Vänskä, Víking Heiðar Ólafsson, Aagot Vigdísi Óskarsdóttur, Kristin Sigmundsson, Evu Ollikainen, Katie Buckley, Svanhildi Óskarsdóttur, Kornilios Michailidis, Láru Sóleyju Jóhannsdóttur, Frank Aarnink og fleiri.

Hljóðfærið verður tileinkað minningu Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur sem lést 11. september 2022. Anna Guðný hafði mikil áhrif á tónlistarlíf og tónlistarfólk á Íslandi og á að baki glæstan feril. Um langt árabil var hún fastráðin píanóleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands og meðleikari við Tónlistarskólann í Reykjavík. Einnig sinnti Anna Guðný störfum fyrir Vinafélag SÍ ásamt eiginmanni sínum Sigurði Ingva Snorrasyni, klarínettuleikara. Anna Guðný hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til íslensks tónlistarlífs og heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2022.

Hljóðfærið kostar um 3.500.000 kr. þannig að enn vantar upp á. Þeim sem vilja leggja söfnuninni lið á síðustu metrunum er bent á að hægt er að leggja inn frjáls framlög á reikning Vinafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Stefnt er að því að færa Sinfóníuhljómsveit Íslands hljóðfærið að gjöf um miðjan febrúar áður en hljómsveitin flytur ævintýrið um Töfraflautuna eftir Mozart í styttri útgáfu.

Reikningur Vinafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
Mikilvægt er að setja í skýringu „styrkur“

Reikningur: 513-26-24060
Kennitala: 420402-4060Með kærri kveðju,
Fyrir hönd stjórnar Vinafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands,

Bryndís Guðjónsdóttir, formaður