EN

10. september 2019

Spennt fyrir nýju starfsári

Konsertmeistarar Sinfóníuhljómsveitar Íslands teknir tali

Sigrún Eðvaldsdóttir og Nicola Lolli eru konsertmeistarar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Sigrún hefur gegnt stöðunni frá árinu 1998 og Nicola frá árinu 2014. Þau ræða um starfsárið framundan, samstarfið og mikilvægi þess að vera heiðarlegur í samskiptum.

Hollar tónleikaferðir

„Ég er alltaf spennt fyrir nýju starfsári, það er nóg af fallegri tónlist til að spila, fullt af spennandi tónleikum og áhugaverð þemu,“ segir Sigrún. Nicola tekur undir og segist líka spenntur fyrir tónleikaferðum starfsársins. „Það er aldrei nóg af tónleikaferðum,“ segir Nicola og þau hlæja bæði. „Án gríns,“ segir Sigrún „þá eru þær svo hollar fyrir hljómsveitina, á þeim kemur hljómsveitin einhvern veginn saman sem ein heild. Það er erfitt að útskýra hvað gerist en það tengist samspilinu.“ Nicola kinkar kolli og segir að hljómsveitin hafi lært mikið af tónleikaferðinni til Japans á síðasta ári. „Það var mjög lærdómsríkt að spila í öllum þessum mismunandi sölum og að þurfa að aðlagast nýjum hljómburði á hverjum stað og bera hann saman við hljóminn í Eldborg. Hraðinn í uppsetningum og undirbúningi var góður skóli fyrir hljómsveitina og svo auðvitað að verja meiri tíma með kollegum á ókunnum stöðum. Við þekkjum hvort annað betur en við gerðum fyrir ferðina.“

Heiðarleiki mikilvægur

„Samstarf okkar hefur gengið mjög vel,“ segir Sigrún. „Við erum mjög heiðarleg hvort við annað og við reynum að styðja hvort annað. En það sem ég kann best að meta er þessi heiðarleiki á milli okkar, þannig að ef okkur greinir á þá getum við gert út um það þannig að við séum bæði sátt við útkomuna.“ Sigrún heldur áfram og segir: „Við erum ólík en mér finnst það bara fínt, hafandi sagt það þá er það svolítið merkilegt að við erum eiginlega alltaf sammála um allt, næstum alltaf!“ Nicola samsinnir því og brosir. Bæði hafa þau Sigrún og Nicola leitt hljómsveitir annars staðar en á Íslandi, Sigrún í Danmörku og víðar og Nicola á Spáni og á Ítalíu. „Mér finnst það mikilvæg reynsla, þú getur gert samanburð á þinni eigin hljómsveit og þeirri sem þú leiðir í það skiptið, gerst svona njósnari og fylgst með því hvernig aðrir gera hlutina,“ segir Sigrún, Nicola segist einnig viss um það að þetta sé mikilvægt fyrir konsertmeistara því að alltaf megi læra eitthvað nýtt og taka með heim, „ekki bara fyrir okkur heldur fyrir alla hljóðfæraleikara er nauðsynlegt að leika í mismunandi hópum og hljómsveitum.“

Sækir innblástur í náttúruna

Nicola, sem er fæddur og uppalinn á Ítalíu, var ráðinn konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitarinnar fyrir fimm árum en hann segist alltaf hafa haft brennandi áhuga fyrir norðrinu og fjarlægum löndum. „Því stökk ég á það tækifæri að koma og prufuspila fyrir þessa stöðu.“ Hann heldur áfram og segir „Ég reyni að nota frítíma minn til útivistar, ég sæki innblástur og orku í náttúruna sem hér er ófyrirsjáanleg og spennandi og jafnvel þegar veður er það slæmt að ekki er ráðlegt að ganga á öll þá finn ég betur fyrir frumkröftum náttúrunnar hér en annars staðar. Maður þarf ekki að fara langt frá Reykjavík til að finna fallega náttúru og það er einstakt.“

Spennandi Wagner framundan

Sinfóníuhljómsveitin mun á þessu starfsári flytja Valkyrjuna eftir Richard Wagner í samstarfi  við Listahátíð í Reykjavík og Íslensku óperuna. „Ég er rosalega spennt fyrir því verkefni,“ segir Sigrún „Ég þekki hljómsveitarstjórann, Alexander Vedernikov, og var svo heppin að fá að spila undir hans stjórn bæði í Kaupmannahöfn og Óðinsvéum. Hann er algjör snillingur og ég efast ekki um að þetta verði stórkostlegt.“ Nicola segist líka hlakka mikið til þessa verkefnis. „Ég elska Wagner en það er erfitt að spila tónlistina hans, ekki síst þar sem óperurnar eru svo langar. Ég spilaði í nokkrum óperum hans í Vínarborg fyrir allmörgum árum og ég man að ég var svolítið skelkaður fyrst en svo varð þetta allt í lagi. En það er mikilvægt að vera í góðu líkamlegu formi til að spila þessa tónlist.“