EN

28. ágúst 2024

Stolt að geta fagnað 75 ára kraftaverki

Eva Ollikainen, aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, segir frá afmælisárinu framundan og þeim tónleikum sem hún er spenntust fyrir.

Sinfóníuhljómsveit Íslands verður 75 ára vorið 2025 og fagnar tímamótunum með viðamiklum afmælistónleikum í mars. Aðalstjórnandi hljómsveitarinnar, Eva Ollikainen, segir þó afmælisfögnuðinn eins og rauðan þráð gegnum allt starfsárið, enda tónleikadagskráin óvenju glæsileg.

Að Ísland geti fagnað því að eiga 75 ára gamla sinfóníuhljómsveit er ekkert minna en kraftaverk,“ segir Eva Ollikainen, aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands þegar hún er spurð út í afmælisárið sem framundan er. „Hljómsveitin hefur aldrei verið í betra formi og þetta eru dásamleg tímamót. Mér finnst það mikill heiður að taka þátt í að fagna því sem aðalhljómsveitarstjóri.“ Og því verður fagnað á margvíslegan hátt, eins og Eva leggur áherslu á. Til að mynda eru fyrstu áskriftartónleikar haustsins glæsileg Wagner veisla þar sem öllu er tjaldað til. „Við erum með einn af fremstu listamönnum Íslands sem staðarlista mann, Ólaf Kjartan Sigurðarson, og það verður stórkostlegt að opna með honum starfsárið 

í september með Wagner veislu þar sem aríur og hljómsveitarforleikir úr óperum meistarans þýska fá að hljóma,“ segir Eva. Ólafur Kjartan er svo einnig í stóru hlutverki á glæsilegum óperutónleikum í byrjun apríl þar sem óperuperlur úr ýmsum áttum fá að hljóma. 



 

YO-YO MA TIL ÍSLANDS OG VÍKINGUR Á AFMÆLISTÓNLEIKUM

 „Það er líka sannkölluð hátíð að fá bandaríska sellóleikarann YoYo Ma hingað til lands í fyrsta sinn í október. Hann leikur hinn stórbrotna sellókonsert Elgars með hljómsveitinni þann 24. október. YoYo Ma er maður sem trúir á kraft tón listar innar til að sameina fólk og bæta heiminn og það verður mikill inn blástur að fá hann á svið í Eldborg,“ segir Eva. „Hinir eiginlegu afmælistónleikar eru svo haldnir í mars. Þeir verða mikil veisla. Við erum ótrúlega heppin að fá Víking Heiðar Ólafsson sem einleikara á þeim tónleikum með hinn yndisfagra annan píanókonsert Brahms.“

 

 

 

 

Hljómsveitin hefur aldrei verið í betra formi og þetta eru dásamleg tímamót.“

 

 

NÚTÍMAKLASSÍK AF BESTU GERÐ

Verkefni Evu eru fjölbreytt á starfsárinu og tilhlökkunarefnin mörg, en hún er ekki síst áhugasöm um tónlist sem miðlar hugðarefnum samtímans. „Ég hlakka mikið til að stjórna annarri sinfóníu Thomasar Larcher í byrjun október,“ segir Eva, þegar hún er spurð út í hvað standi upp úr. „Þetta er meistaraverk úr samtímanum sem tekst með beinum hætti á við eitt stærsta mál okkar tíma. Verkið er einskonar minnisvarði um flóttafólk sem drukknað hefur í Miðjarðarhafinu síðustu ár. Þetta er feikilega sterkt verk sem er mér mjög kært — ég vona að áheyrendur hrífist eins og ég. Hitt sem ég hlakka verulega til er að flytja allar sinfóníur eistneska tónskáldsins Arvo Pärt á einum tónleikum, en þær verða einnig hljóðritaðar fyrir nýja útgáfu á vegum útgáfu fyrirtækisins Chandos. Þessar fjórar sinfóníur eru gerólíkar innbyrðis og það verður frábært að heyra þær allar saman,“ segir Eva, en þessi risi evrópskrar samtímatónlistar fagnar níræðisafmæli sínu árið 2025.

FRAMÚRSKARANDI ÍSLENSK VERK OG EINLEIKARAR

„Svo eru mörg frábær, ný, íslensk verk á efnisskrá vetrarins, bæði þau sem frumflutt verða, á borð við fiðlukonsert Þórðar Magnússonar sem er á efnisskrá í janúarlok, en ekki síður þau sem þegar hafa vakið athygli erlendis en rata nú fyrst heim,“ segir Eva, en hún fylgist vel með gengi íslenskra tónskálda á erlendri grund. „Í þeim flokki eru verk Daníels Bjarnasonar, Fragile Hope, og slagverkskonsert hans, Inferno, sem hljóma saman á tónleikum í janúar. Sömuleiðis verk Hildar Guðna dóttur, The Fact of the Matter, sem er á efnisskrá tónleikanna okkar með YoYo Ma í október. Svo má nefna fagott konsert Páls Ragnars Pálssonar sem verður fluttur á Myrkum músíkdögum í fyrsta sinn á Íslandi. Ég er líka sérstaklega stolt af því að geta teflt fram glæsilegum einleikurum úr hljómsveitinni á tónleikum þessa afmælisárs,“ segir Eva, og nefnir Sigrúnu Eðvaldsdóttur konsertmeistara sem leikur fiðlukonsert Brahms, Stefán Jón Bernharðs son sem leikur fjórða hornkonsert Mozarts, Pál Palomares sem leikur Spænska sinfóníu Lalos og Katie Buckley sem leikur hörpukonsert Lottu Wennäkoski. „Þessi hljómsveit státar af svo stórkostlegu tónlistarfólki. Á Íslandi er að finna sterka flytjendur og tónskáld, og það er ekki síst með því að hampa þessu fólki sem við fögnum afmæli hljómsveitarinnar og þeim áhrifum sem hún hefur haft á íslenskt samfélag,“ segir Eva stolt að lokum.