EN

5. september 2024

Wagner er alls staðar

Ólafur Kjartan Sigurðarson staðarlistamaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands segir frá verkefnum vetrarins

„Mér finnst þetta ótrúlegur heiður,“ segir staðarlistamaðurinn, Ólafur Kjartan, í símanum frá Berlín þar sem hann hefur verið búsettur með fjölskyldu sinni um margra ára skeið — „og ég hlakka óskaplega til að syngja heima. Það er orðið ansi langt síðan síðast.“ Það er vor í Berlín og Ólafur Kjartan er á leið í síðustu verkefni starfsársins — sýningar á Macbeth í Prag og Rigoletto í Leipzig — en fyrir utan þessar óperur Verdis eru næstum öll hlutverkin sem hann syngur á árinu í óperum Wagners.

FÓRNAR SILUNGSVEIÐINNI FYRIR WAGNER

„Sumrinu ver ég í Bayreuth,“ segir Ólafur Kjartan. „Það er þriggja mánaða törn — fjórða sumarið í röð!“ Wagner hátíðin í Bayreuth er sögufræg, enda stofnaði Wagner hana sjálfur utan um flutning ópera sinna árið 1876. Árlega eru þar metnaðarfullar og framsæknar uppfærslur á óperum meistarans sem skarta listafólki í fremstu röð. „Það verður víst engin silungsveiði á Íslandi þetta sumarið, og ekki næsta heldur, því það er nú þegar bókað líka,“ segir Ólafur Kjartan glettinn. „Í sumar held ég áfram að syngja hlutverk Alberichs í Niflungahringnum og Biterolfs í Tannhäuser. Svo þreyti ég frumraun mína sem Kurwenal í Tristan og Ísold í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar, sem er ekki lítið tilhlökkunarefni,“ segir Ólafur Kjartan, en eins og heyra má er verkalistinn í Bayreuth orðinn langur og glæsilegur.



Þetta er algjör konfektkassi fyrir mig“

BEINT FRÁ BAYREUTH Í ELDBORG

Eftir sumar í Bayreuth stekkur Ólafur Kjartan nánast beint upp á svið í Eldborg, en hann syngur í glæsilegri Wagner-veislu Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir stjórn Evu Ollikainen 5. september og segir frá lífi sínu og list á opnu húsi í Norðurljósum tveimur dögum fyrr. „Þetta er algjör konfektkassi fyrir mig,“ segir Ólafur Kjartan um Wagner-veisluna. „Ég fæ að syngja aríu Hollendingsins, kveðju orð Óðins úr Valkyrjunni, við dýfum tánum í Meistarasöngvarana og Tannhäuser.“ Í byrjun apríl syngur Ólafur Kjartan svo aftur með hljómsveitinni og Bjarna Frímanni Bjarnasyni hljómsveitarstjóra og verða þá óperuperlur úr ýmsum áttum á efnisskránni. „Þá teflum við fram öllu hinu – öllu sem ekki er Wagner. En þetta er líka tækifæri til að bjóða með á svið glæsilegum, ungum íslenskum söngvurum og syngja dúetta, tríó og kvartetta. Þetta verður fyrst og fremst rosalega mikið stuð og ofsagaman.“

WAGNER Á HARÐARI AÐDÁENDUR EN ROLLING STONES

Spurður út í seiðmagn tónlistar Wagners segir Ólafur Kjartan að tónlist hans sé stórbrotin, en miklu aðgengilegri en margir halda. „Wagner áhangendur eru harðari en áhangendur Rolling Stones! Það eru Wagner félög um allan heim. En Wagner gjörbylti óperu og sviðslistaforminu og var ótrúlegur sagnamaður í tónlist.“ Ólafur leggur áherslu á að flest séum við nokkuð vel að okkur í tónlist Wagners þegar vel er að gáð. „Við höfum öll séð kvikmyndir eða sjónvarpsseríur þar sem leiðarstef líkt og þau sem Wagner kynnti til sögunnar eru notuð. Til dæmis í hákarlamyndinni Jaws, þar sem við heyrum stefið áður en við sjáum hákarlinn. Þegar tónlistin undirbýr okkur tilfinningalega fyrir spennu, atburði, persónur og fyrirbæri — þetta fær nútímamenningin frá Wagner. Fyrir utan það, hvernig allir þekkja laglínur hans — frá brúðarmarsinum úr Lohengrin til Valkyrjureiðarinnar sem hefur hljómað í stríðsmyndum jafnt sem Tomma og Jenna. Já, svo er Hollendingurinn fljúgandi gernýttur í Svampi Sveinssyni! Wagner er alls staðar, án þess að við gerum okkur grein fyrir því.“


ÝMIST PABBINN EÐA VONDI KALLINN

Ólafur Kjartan á langan feril að baki en nýtur þess að vera enn að vinna nýja sigra. Hann þreytti til að mynda frumraun sína á La Scala í Mílanó síðasta haust í óperunni Peter Grimes eftir Britten. „Ég er orðinn 55 ára gamall og hef verið að í ein 30 ár. Þetta er ferill sem hefur verið lengi í smíðum. Bassabarítónar eins og ég erum seinþroska — röddin þroskast rólega og ég var ekki farinn að geta sungið Wagner almennilega fyrr en um fertugt. Það er stórkostlegt að vera kom inn á þennan stað núna. Nú syng ég bara hlutverk pabbans eða vonda kallsins. Það er geggjað,“ segir hann og hlær. „Oftar en ekki er maður svo drepinn í öðrum þætti, svo maður getur farið snemma heim. Það er fullkomið líf!“