EN

28. janúar 2019

„Það var ótrúlegt ferðalag að skrifa Metacosmos“

Anna Þorvaldsdóttir staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Í ársbyrjun 2018 tók Anna Þorvaldsdóttir við stöðu staðartónskálds Sinfóníuhljómsveitar Íslands, en áður hafði Daníel Bjarnason gegnt starfinu til þriggja ára. Sem staðartónskáld semur Anna ný tónverk fyrir hljómsveitina, auk þess sem flutt verða nýleg verk hennar. Anna tekur einnig sæti í verkefnavalsnefnd hljómsveitarinnar, og leiðir tónskáldasmiðju.

Á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Myrkum músíkdögum 31. janúar 2019 verður verkið Metacosmos eftir Önnu Þorvaldsdóttur frumflutt á Íslandi. Tónskáldaspjall við Önnu í tilefni af frumflutningi verksins verður haldið í Hörpuhorni  kl. 18:30 á tónleikadegi. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Tekur fyrst Manhattan, svo Berlín

Anna Þorvaldsdóttir er meðal virtustu tónskálda samtímans og eru verk hennar reglulega flutt víðsvegar um heim. Þau hafa nýlega hljómað til dæmis á Mostly Mozart-hátíðinni í New York, í Walt Disney Hall í Los Angeles, Royal Festival Hall í Lundúnum og í Elbphilharmonie í Hamborg. „Það er auðvitað dásamlegt að upplifa það þegar fólk vill hlusta á tónlistina og eiga í sambandi við hana,“ segir Anna. „Fyrir mér er það dýrmætasta þegar fólk tengir við tónlistina á eigin forsendum,“ bætir hún við. Anna var handhafi Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2012 og hefur síðan hlotið fjölda verðlauna – meðal annars Kravis Emerging Composer Prize frá Fílharmóníuhljómsveitinni í New York 2015. Nýjasti listræni sigur Önnu er einmitt sprottinn upp úr þeim verðlaunum, en í kjölfar þeirra pantaði Fílharmóníusveit New York-borgar af henni hljómsveitarverkið Metacosmos, og frumflutti það síðasta vor undir stjórn Esa-Pekka Salonen við mikið lof gagnrýnenda. „Það var magnað að vera við frumflutninginn. Verkið var flutt á áskriftartónleikum en þá eru þrennir tónleikar með sömu dagskrá,“ segir Anna. „Og það var dásamlegt að heyra með hverju kvöldinu hvernig verkið varð meira og meira hluti af hljómsveitinni eftir því sem þau fluttu það oftar. Og það var líka auðvitað yndislegt að upplifa þessar góðu viðtökur við verkinu og finna það hversu margir vildu tengja við tónlistina,“ segir Anna, en í framhaldinu bárust fréttir af því að Fílharmóníusveit Berlínar hygðist flytja verkið í ársbyrjun 2019. Það verður í fyrsta sinn sem hljómsveitin, af mörgum talin sú besta í heimi, flytur íslenskt verk síðan hún flutti orgelkonsert Jóns Leifs 1941.

Mikið ferðalag að baki Metacosmos

Íslenskir tónleikagestir fá einnig að heyra Metacosmos, því Sinfóníuhljómsveit Íslands flytur verkið 31. janúar næstkomandi. Auk þess stendur til að hljómsveitin hljóðriti verkið fyrir bandaríska útgáfufélagið Sono Luminus. En hvernig er þetta verk? „Það var ótrúlegt ferðalag að skrifa Metacosmos,“ segir Anna. „Það fór með mig í marga hringi og gegnum miklar til tilfnningar. Þegar ég er að byrja að skrifa verk tek ég mér alltaf góðan tíma til að finna hugmyndirnar að baki verkinu og setja þær saman í heildstætt form áður en ég byrja að skrifa verkið út í nótur. Fyrir Metacosmos þá varð hugmyndin um sambandið á milli óreiðu og fegurðar strax mjög sterkur innblástur fyrir mér, sérstaklega það hvernig óreiða getur stundum umbreyst yfir í formsterka heild.“

Vill efla þátt samtímatónlistar

En hlutverk staðartónskálds felur í sér margt annað en tónsmíðar. „Það felast mörg gríðarlega spennandi verkefni í þessu,“ segir Anna. „Ekki síst að geta tekið þátt í að móta listræna stefnu hljómsveitarinnar og vera hluti af verkefnavalsnefnd og tónskáldasmiðjunni Yrkju, sem er samstarfsverkefni Sinfóníunnar og Íslenskrar tónverkamiðstöðvar og miðar að því að veita ungum tónskáldum reynslu í að semja fyrir sinfóníuhljómsveit.“ Anna segir sitt innlegg til hljómsveitarstarfsins snúa að miklu leyti að því að efla þátt samtímatónlistar í starfi sveitarinnar. „Ég hef sjálf mikla ástríðu fyrir að vinna að hljómsveitartónlist og að auka aðgengi að nýjum og nýlegum hljómsveitarverkum. Mér finnst líka afskaplega mikilvægt að stuðla að nýsköpun á þessu sviði og hlakka til að leggja mitt af mörkum þar, eins og ég mögulega get. Það er líka gaman að segja frá því að við erum að panta nýtt kammerverk eftir Bergrúnu Snæbjörnsdóttur sem verður frumflutt í Föstudagsröðinni 29. mars næstkomandi og ég sé fyrir mér að panta allavega eitt eða tvö verk á ári sem verða hluti af þeirri röð. Í tengslum við hlutverk mitt sem staðartónskáld er hljómsveitin líka hluti af öðrum stórum verkefnum sem hafa verið pöntuð hjá mér næstu ár, og það er mjög gaman að geta tengt hljómsveitir saman á þann hátt.“