EN

12. apríl 2018

Þrjú þúsund nemendur á skólatónleikum í vikunni

Í þessari viku hélt Sinfóníuhljómsveit Íslands þrenna framhaldsskólatónleika og tók á móti tæplega 3.000 framhaldsskólanemendum úr FB, Borgarholtsskóla, Tækniskólanum, Kvennaskólanum, MK, Verzlunarskólanum og MR.

Á tónleikunum lék hljómsveitin sívinsæla kvikmyndatónlist eftir John Williams m.a. úr Stjörnustríði, Indiana Jones og Schindler's List. Í minningu kvikmyndatónskáldsins Jóhanns Jóhannssonar, sem lést í febrúar á þessu ári, lék hljómsveitin tvö verk úr kvikmyndinni Theory of Everything.

Á hverju starfsári heldur Sinfóníuhljómsveit Íslands fjölmarga skólatónleika þar sem nemendum, allt frá leikskólaaldri til framhaldsskólanema, er boðið að hlusta á vandaða dagskrá í tali og tónum. Skólatónleikar hljómsveitarinnar hafa vakið verðskuldaða eftirtekt þar sem tónverk hverra tónleika eru sniðin að ákveðnum aldurshópi. Á síðasta starfsári tók hljómsveitin á móti og heimsótti ríflega 16.000 skólabörn víðsegar á landinu.

Opnað er fyrir skráningu á skólatónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands í upphafi hvers starfsárs. Nánari upplýsingar má nálgast á fræðsluvef hljómsveitarinnar.