EN

4. mars 2020

„Þú skalt bara leggja þetta fyrir þig, drengur minn"

Rætt við Þórarin Óskarsson, básúnuleikara, sem lék á fyrstu tónleikum hljómsveitarinnar árið 1950

Fyrstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands voru haldnir í hinu nýbyggða Austurbæjarbíói hinn 9. mars 1950. Stjórnandi var Róbert A. Ottósson og á efnisskránni voru verk eftir Beethoven, Bartók, Haydn og Schubert. Í Sinfóníuhljómsveit Íslands voru fyrst um sinn 39 hljóðfæraleikarar, þar af fimm erlendir tré- og málmblásturshljóðfæraleikarar sem fengnir voru sérstaklega til að styrkja hljómsveitina. Sumir innlendu hljóðfæraleikaranna voru ungir að árum enda þurfti að nota alla þá krafta sem til staðar voru. Á básúnu léku þrír ungir menn, Björn R. Einarsson sem þá var 27 ára og gengdi stöðu leiðandi stöðu í hljómsveitinni, Halldór Einarsson sem var 24 ára og Þórarinn Óskarsson sem þá var tvítugur. Halldór lést árið 2009 og Björn árið 2014 en Þórarinn er kominn fast að níræðu. Hann er ern með eindæmum og kann enn sögur af starfinu fyrstu árin.

Frá fyrstu tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands 9. mars 1950 í Austurbæjarbíói.

„Þú skalt bara leggja þetta fyrir þig, drengur minn“

„Tónleikarnir heppnuðust vel, það var alveg fullt hús og allir ánægðir með þá og sumir alveg yfir sig hrifnir,“ segir Þórarinn. „Æfingarnar höfðu gengið að óskum, Róbert Abraham var ágætur stjórnandi, þó betri kórstjórnandi en hljómsveitarstjóri, en hann var mjög nákvæmur og gerði allt eftir bókinni. Samstarfið við hina erlendu hljóðfæraleikara gekk líka vel og við vorum fljótir að kynnast þeim eftir að þeir komu og sumir þeirra ílengdust hér á landi. Allir hinir blásararnir í sveitinni komu úr röðum Lúðrasveitar Reykjavíkur. Ég líka, en þar hafði ég byrjað hjá Birni R. Einarssyni og hann fékk mig að halda áfram, útvegaði mér hljóðfæri og sagði, „Þú skalt bara leggja þetta fyrir þig, drengur minn.“ Faðir hans, Einar Jónsson, ætlaði þá að hætta í sveitinni um haustið og það vantaði mann.“

„Þú getur farið að kenna“

„Ég spilaði með Sinfóníuhljómsveit Íslands í fjögur ár, frá 1950–1954. Á þessum árum var ég byrjaður að spila dansmúsik með hinum ýmsu böndum, þannig að ég hafði í sjálfu sér ágætis tekjur. Jón Þórarinsson bauð mér áframhaldandi samning hjá hljómsveitinni en launin voru bara svo lág og ég var búin að fá vinnu hjá varnarliðinu þar sem launin voru tvöfalt hærri og ég var þá með hús í byggingu, þannig að það gekk ekki. Jón reyndi að telja mér hughvarf og benti á að ég gæti farið að kenna og tvöfaldað launin þannig, en þá hefði ég bara verið kominn í tvöfalt starf, þannig að þar við sat. Ég spilaði áfram dansmúsík, meðal annars með mínu eigin bandi, Dixielandhljómsveit Þórarins Óskarssonar, og líka með strákunum uppi á velli á klúbbunum þar.“

365-hljomsveitir-Sinfoniuhljomsveitin-7

Á 40 ára afmæli Sinfóníuhljómsveitarinnar árið 1990 var tekin ljósmynd af fimm frumherjum sem höfðu starfað með hljómsveitinni allt frá upphafi, og léku allir með á fyrstu tónleikunum 1950: (frá vinstri) Björn R. Einarsson, Jónas Dagbjartsson, Þorvaldur Steingrímsson, Ingvar Jónasson og Páll P. Pálsson.

Sverðdans með Katsjatúrían

„Þetta var í sjálfu sér ekki erfið ákvörðun. Ég fylgdist grannt með hljómsveitinni árin á eftir, fór á alla tónleika hennar og naut þess. Þetta var góður tími og maður eignaðist góða vini og ég minnist þessara ára með mikilli hlýju. Eftirminnilegustu tónleikarnir eru tónleikar í Þjóðleikhúsinu árið 1951 þegar rússneska tónskáldið Aram Katsjatúrían kom og stýrði hljómsveitinni. Á efnisskrá voru meðal annars nokkur verk eftir hann sjálfan, þar á meðal hinn frægi Sverðdans. Þetta voru skemmtilegir tónleikar og hann var bara ánægður með hljómsveitina. Ég á einmitt mynd af okkur saman þar sem hann er að segja mér til, en ég ekki honum,“ segir Þórarinn að lokum og brosir sínu strákslega brosi en myndina má sjá hér efst í fréttinni.