EN

23. febrúar 2018

Tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2017

Tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2017 voru kynntar föstudaginn 23. febrúar. Sinfóníuhljómsveit Íslands og listamenn sem störfuðu með hljómsveitinni á árinu hlutu samtals 13 tilnefningar.

Tónlistarviðburður ársins:
Tónleikarnir LA/Reykjavík eru tilnefndir sem tónlistarviðburður ársins. Á tónleikunum flutti hljómsveitin Sálmasinfóníu Stravinskíjs ásamt Hamrahlíðarkórunum undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur og flutti hljómsveitin einnig Scheherazade.2 eftir John Adams með fiðlustjörnunni Leilu Josefowicz. Hljómsveitarstjóri á tónleikunum var Daníel Bjarnason.

Hljómplata ársins; Sígild- og samtímatónlist:
Recurrence, diskur með upptökum af fimm íslenskum hljómsveitarverkum gefin út af útgáfufyrirtækinu Sono Luminus. Á disknum má heyra Dreaming eftir Önnu Þorvaldsdóttur, Aequora eftir Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur, BD eftir Hlyn A. Vilmarsson, Flow & Fusion eftir Þuríði Jónsdóttur og Emergence eftir Daníel Bjarnason sem jafnframt er hljómsveitarstjóri.

Nostalgia, er einnig tilnefnd en hún er er fyrsta plata með tónsmíðum Páls Ragnars Pálssonar. Titilverkið á plötunni, fiðlukonsertinn Nostalgia, er flutt af Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Unu Sveinbjarnardóttur, þriðja konsertmeistara hljómsveitarinnar. Hljómsveitarstjóri á plötunni er Daníeli Bjarnasyni.

Tónlistarflytjandi ársins; Sígild- og samtímatónlist:
Víkingur Heiðar Ólafsson og Stefán Ragnar Höskuldsson voru einnig tilnefndar sem flytjendur ársins, m.a. fyrir flutning á verkum á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Sigríður Ósk Kristjánsdóttir, Dísella Lárusdóttir og Ólafur Kjartan Sigurðsson eru tilnefnd sem söngvarar ársins en þau komu öll fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikunum Klassíkin okkar þann 1. september síðastliðnum.

Tónverk ársins; Sígild- og samtímatónlist:
Víólukonsertinn Echo Chamber sem Haukur Tómasson samdi fyrir Þórunni Ósk Marínósdóttur og frumfluttur af Sinfóníuhljómsveit Íslands er tilnefndur sem tónverk ársins. 

Sellókonsertinn Quake eftir Pál Ragnar Pálsson er einnig tilnefndur en hann hljómaði á tónleikum hljómsveitarinnar á Myrkum músíkdögum í janúar síðastliðnum.

Daníel Bjarnason hlýtur einnig tvær tilnefningar fyrir tónverk ársins: fyrir óperuna Brothers og fiðlukonsertinn sem var frumfluttur síðastliðið vor af Fílharmóníusveitinni í Los Angeles af fiðluleikaranum Pekka Kuusisto undir stjórn Gustavo Dudamel. Bæði verkin verða frumflutt á Íslandi af Sinfóníuhljómsveit Íslands á næstu misserum: Brothers verður flutt á Listahátíð í Reykjavík 9. júní næstkomandi og fiðlukonsertinn hljómar í fyrsta sinn á Íslandi á tónleikum hljómsveitarinnar á Myrkum músíkdögum á næsta starfsári.

Skoða allar tilefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2017.