EN

22. desember 2020

Tónleikahald hefst á ný í janúar

Sinfóníuhljómsveit Íslands kynnir nýja og fjölbreytta dagskrá í janúar. Boðið verður upp á ferna klukkustundarlanga tónleika án hlés sem spanna vítt svið tónlistar, allt frá Mozart, Schumann og Brahms til nýrra og nýlegra verka, m.a. eftir Kaiju Saariaho, Hauk Tómasson og Daníels Bjarnasonar. Áður auglýst dagskrá í janúar hefur hinsvegar verið felld niður. Kynntu þér nýju dagskrána hér

Alls munu átta hljóðfæraleikarar úr röðum sveitarinnar stíga fram og leika með hljómsveitinni í einleiksverkum. Þau eru Áshildur Haraldsdóttir flautuleikari, Jacek Karwan kontrabassaleikari og Duo Harpverk skipað Katie Buckley hörpuleikara og Frank Aarnink slagverksleikara, auk þess sem fjórir hornleikarar munu flytja glæsilegan konsert fyrir fjögur horn eftir Robert Schumann. Stjórnendur verða Bjarni Frímann Bjarnason staðarhljómsveitarstjóri og Daníel Bjarnason aðalgestastjórnandi sem hlaut nýverið ásamt hljómsveitinni tilnefningu til hinna virtu Grammy-verðlauna.

Ábyrgt viðburðahald í Hörpu

Sinfóníuhljómsveit Íslands og Harpa leggja áherslu á ábyrgt viðburðahald og fylgja reglum og viðmiðum um samkomutakmarkanir. Útfærslur á viðburðahaldi hafa verið unnar í samstarfi við almannavarnir með fagmennsku og áreiðanleika að leiðarljósi. Sætaframboð á tónleikana takmarkað við 50 tónleikagesti í hvert sóttvarnarhólf í Eldborg eða samtals 200 gesti í fjórum hólfum. Grímuskylda er á tónleikunum en í það minnsta tvö auð sæti eru á milli allra pantana til að tryggja nálægðarmörk milli gesta í sal. Tónleikarnir eru um klukkustundar langir og ekki er gert hlé. 

Við biðjum tónleikagesti að gæta vel að sóttvarnarreglum og kynna sér leiðbeiningar til tónleikagesta áður en mætt er á tónleikana. Stöndum saman, við erum öll almannavarnir.

Miða- og kortasala er hafin. Kynntu þér dagskrána í janúar hér á vef hljómsveitarinnar.