EN

17. desember 2018

Viðburðaríkt ár hjá Sinfóníunni

Að venju hófst nýtt ár á Vínartónleikum sem eru jafnframt best sóttu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Á nýju ári var Anna Þorvaldsdóttir útnefnd staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands og tók hún við af Daníel Bjarnasyni sem hafði gegnt stöðunni undanfarin þrjú ár. Einnig var Bjarni Frímann Bjarnason ráðinn sem aðstoðarhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands.


20181215_DSC8723_SINFO

Hátíðleikinn réð ríkjum á Jólatónleikum Sinfóníunnar í desember

Af öðrum hápunktum á árinu má nefna að Osmo Vänskä stjórnaði sjöttu sinfóníu Shostakovitsj við frábærar viðtökur í febrúar, Örlagasinfónía Beethovens hljómaði undir stjórn Eivinds Aadlands og í sama mánuði söng hin heimsfræga Karita Mattila Wesendonck-söngvana eftir Wagner með hljómsveitinni. 

Gautaborgarsinfónían heimsótti Ísland á árinu með píanistanum Hélène Grimaud og lék undir stjórn Santtu-Matias Rouvali.

Nobu lék á tvennum tónleikum í Eldborg á árinu með Sinfóníuhljómsveit Íslands

Vladmir Ashkenazy, aðalheiðursstjórnandi hljómsveitarinnar, og píanóleikarinn Nobuyuki Tsujii komu fram á tvennum tónleikum hljómsveitarinnar í Hörpu á árinu, áður en þeir héldu í tónleikaferðalag með hljómsveitinni til Japans í nóvember. Tónleikaferðin heppnaðist mjög vel og uppselt var á alla tónleika hljómsveitarinnar í Japan.

Sinfóníuhljómsveit Íslands lék fyrir 25.000 tónleikagesti á 12 tónleikum í Japan

Af samstarfstónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar á árinu má nefna uppsetningu á Stríði eftir Ragnar Kjartansson og Kjartan Sveinsson í Þjóðleikhúsinu. Á Listahátíð í Reykjavík í júní hélt hljómsveitin tvenna tónleika; Upprisusinfónía Mahlers hljómaði undir stjórn Osmo Vänskä, heiðursstjórnanda sveitarinnar, og óperan Brothers eftir Daníel Bjarnason var sett á svið í Eldborg í samvinnu við Íslensku óperuna. Í ágúst héldu Skálmöld og Sinfóníuhljómsveit Íslands samtals ferna tónleika í Eldborg við frábærar viðtökur.

9V2A0421

Uppselt var á alla tónleika Skálmaldar og Sinfó í Eldborg

Klassíkin okkar var haldin í þriðja sinn og að þessu sinni voru það uppáhaldsverk þjóðarinnar sem voru flutt í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV. Fiðlustjarnan Renaud Capuçon lék Fiðlukonsert nr. 2 eftir Béla Bartók á upphafstónleikum starfsársins og Þóra Einarsdóttir söng Fjóra síðustu söngva eftir Strauss í september. Uppistandstónleikar Ara Eldjárns og Sinfó slógu rækilega í gegn og var uppselt á þrenna tónleika í september. Í október flutti hljómsveitin nýtt tónlistarævintýri um Maxímús Músíkús þar sem hann ferðast um Ísland en verkið var pantað af Sinfóníuhljómsveit Íslands og Fílharmóníusveit Los Angeles. 

Maximus-3345

Maxímús ferðast um fjöll í nýju tónlistarævintýri undir stjórn Daníels Bjarnasonar

Hljómsveitarstjórinn Klaus Mäkelä stjórnaði hljómsveitinni á tónleikum í október og voru tónleikarnir í beinu myndstreymi hér á vef hljómsveitarinnar. Tónleikagagnrýnandi Morgunblaðsins gaf tónleikunum fjóra og hálfa stjörnu og segir meðal annars í dómnum: „hljómsveitin átti í raun stórleik undir stjórn Klaus Mäkelä.“

Sinfo-4048

Klaus Mäkelä stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands fyrir fullu húsi í Eldborg

Í desember hefði tónskáldið Jórunn Viðar fagnað hundrað ára afmæli sínu og af því tilefni var kvikmyndin Síðasti bærinn í dalnum sýnd þar sem tónlist Jórunnar var leikin af Sinfóníuhljómsveit Íslands. Tónleikaárið endaði síðan með Jólatónleikum Sinfóníunnar þar sem íslenskar jólaperlur áttu sviðið í tilefni fullveldisafmælisins.

Sinfóníuhljómsveit Íslands þakkar tónleikagestum í Eldborg og í Japan, gestum á Barnastundum og skólatónleikum hljómsveitarinnar, öllum þeim sem horfðu á beint streymi og hlustendum Rásar 1 fyrir samfylgdina á árinu.