EN

12. apríl 2018

Yrkja IV - tónskáldastofa

Tónverkamiðstöð og Sinfóníuhljómsveit Íslands auglýstu í fjórða sinn eftir umsóknum frá tónskáldum um þátttöku í Yrkju. Yrkja er starfsþróunarverkefni Tónverkamiðstöðvar og veitir tónskáldum sem stödd eru á fyrri hluta starfsferils síns tækifæri til að vinna með úrvali íslenskra listastofnana. 

Tíu umsóknir bárust og voru allar lagðar fyrir dómnefnd á fundi þann 9. apríl að afstöðnu skoðunarferli. Í dómnefndinni sátu Karólína Eiríksdóttir, Atli Ingólfsson, Hallfríður Ólafsdóttir, Sigurgeir Agnarsson og Anna Þorvaldsdóttir sem jafnframt var formaður dómnefndar.

Tvö tónskáld voru valin til að skrifa verk fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands. Það eru þau Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir og Haukur Þór Harðarson sem þegar hafði verið valin til þátttöku. Þau vinna undir handleiðslu Önnu Þorvaldsdóttur, staðartónskálds Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Verkefnið hefst formlega þann 9. maí næstkomandi og mun standa í um níu mánuði. Tónskáldin fá innsýn í innra starf hljómsveitarinnar og vinna náið með hljóðfæraleikurunum, Önnu, skrifstofu og yfirstjórn SÍ.

Verkin verða síðan frumflutt á sérstökum uppskerutónleikum á Myrkum músíkdögum, föstudaginn 1. febrúar kl. 12 í Norðurljósum.

Um Yrkju

Markmið Yrkju er að veita hagnýta reynslu sem getur orðið hornsteinn í ferli tónskáldsins. Verkefnið er fyrir tónskáld á fyrri hluta starfsferilsins og brúar bilið milli háskólanáms og starfsferils með því að undirbúa tónskáld fyrir vinnu í faglegu umhverfi hjá stærri hljómsveitum, hátíðum og öðrum listastofnunum hérlendis og erlendis. Í YRKJU fær tónskáldið tækifæri til að þróa hæfileika sína og listrænan metnað, öðlast starfsreynslu og mynda tengsl í tónlistargeiranum.

Áhersla er lögð á ferli listsköpunar og munu þátttakendur í Yrkju verða hvattir til að þróa hugmyndir sínar og aðferðir við sköpun. Við viljum hlúa að starfsferli tónskáldanna og mun því verkefnið fela í sér ráðgjafaviðtöl í Tónverkamiðstöð um starfsferil tónskáldins og mun miðstöðin skipuleggja fund þar sem tónskáldin í verkefninu hittast og deila reynslu sinni af verkefninu og skiptast á hugmyndum.