EN

Ungsveitin leikur Níundu

10 ára afmælistónleikar Ungsveitar Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Tryggðu þér besta verðið með 20% afslætti með því að kaupa miða á ferna tónleika eða fleiri – Regnbogakort
Dagsetning Staðsetning Verð
22. sep. 2019 » 17:00 » Sunnudagur Eldborg | Harpa 2.600 - 4.900 kr.

Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands hélt sína fyrstu tónleika haustið 2009 og hefur síðan verið meðal máttarstólpa hljómsveitarstarfs fyrir ungt tónlistarfólk hér á landi. Á hverju ári hafa tæplega hundrað ungmenni úr tónlistarskólum landsins safnast saman undir merkjum Ungsveitarinnar og náð undraverðum árangri. Ungsveit SÍ var valin Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2017. Verndari Ungsveitarinnar er Eliza Reid forsetafrú.

Í tilefni af tíu ára afmæli Ungsveitarinnar verður efnt til glæsilegra hátíðartónleika þar sem Níunda sinfónía Beethovens verður flutt með úrvalsliði ungra einsöngvara og æskukóra. Verkið markaði tímamót, þetta var síðasta sinfónía meistarans og um leið sú fyrsta í tónlistarsögunni þar sem notast var við söngvara. Áhrif hennar á þróun sinfóníunnar á 19. öld verða seint ofmetin. 

Það verður mikilfengleg sjón að sjá yfir 200 íslensk ungmenni taka höndum saman um að flytja þetta magnaða verk og ekki síst lokaþáttinn, sjálfan Óðinn til gleðinnar. Aðstoðarhljómsveitarstjórar eru Bernharður Wilkinson og Bjarni Frímann Bjarnason. Kórstjórar eru Hrafnhildur Blomsterberg, Hreiðar Ingi Þorsteinsson, Magnús Ragnarsson, Sigurður Halldórsson og Þorvaldur Örn Davíðsson.

Rússneski hljómsveitarstjórinn Daniel Raiskin heldur um taumana en hann hefur mikla reynslu við að starfa með ungmennum að metnaðarfullum verkefnum. Raiskin hefur tvívegis áður stjórnað Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands og auk þess stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands með afbragðs árangri.

Námsmenn yngri en 25 ára og tónlistarnemar geta keypt miða á 1.800 kr. gegn framvísun Skólakorts Sinfóníunnar í miðasölu Hörpu.

NÁNAR UM SKÓLAKORTið

Sækja tónleikaskrá