EN

30. desember 2023

Annáll 2023

Blómlegt tónleikaár hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands

Sinfóníuhljómsveit Íslands lék fyrir um 90.000 gesti hér heima og erlendis á 92 fjölbreyttum og litríkum tónleikum á árinu sem er að líða.

Hápunktur ársins var tónleikaferð hljómsveitarinnar til Bretlands í apríl þar sem haldnir voru sjö tónleikar undir stjórn Evu Ollikainen aðalhljómsveitarstjóra. Einleikari í ferðinni var Stephen Hough sem er jafnan talinn í hópi virtustu og fjölhæfustu píanóleikara samtímans.

Photo-27.4.2023-18-29-25

Einleikari á tónleikaferð hljómsveitarinnar um Bretland var píanistinn Sir Stephen Hough.

METACOSMOS eftir Önnu Þorvaldsdóttur, staðartónskáld hljómsveitarinnar, var flutt á öllum tónleikum ferðarinnar. Önnur verk voru píanókonsert nr. 2 eftir Rakhmanínov og píanókonsert nr. 3 eftir Beethoven auk 5. sinfóníu Tsjajkovskíjs. Hljómsveitin fékk frábærar móttökur í Bretlandi þar sem hún lék fyrir fullu húsi kvöld eftir kvöld og fékk glimrandi dóma í bresku tónlistarpressunni.

 Hljómsveitin hélt tónleika í mörgum helstu tónleikahúsum Bretlands, þar á meðal í Cadogan Hall í London en uppselt var á tónleikana. 

Meðal hápunkta hér heima má nefna tónleika hljómsveitarinnar með kanadísku sópransöngkonunni og hljómsveitarstjóranum Barböru Hannigan sem bæði söng og stjórnaði verkum Mahlers, Haydns og hinnar írönsku Golfam Khayam í Hörpu og í Hofi og ástríðufullan flutning hljómsveitarinnar á Rómeó og Júlíu Prókofíevs undir stjórn Stéphans Denéve.

B-4

Barbara Hannigan stjórnaði og söng með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu og Hofi á árinu. 

Þá má einnig nefna guðdómlega portretttónleika í Hallgrímskirkju þar sem hljómsveitin og kór kirkjunnar fluttu verk Önnu Þorvaldsdóttur staðartónskálds þannig að eftir var tekið út fyrir landsteinana. Loks ber að nefna flutning hljómsveitarinnar á sinfóníu nr. 3 eftir Mendelssohn undir stjórn Osmo Vänskä, heiðursstjórnanda SÍ.


317A2749

Anna Þorvaldsdóttir staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands. 

Meðal fjölmargra einleikara sem sóttu hljómsveitina heim og hrifu tónleikagesti með sér á árinu voru meðal annarra sellóleikarinn Kian Soltani, píanóleikarinn Sunwook Kim, söngkonan Anu Komsi, fiðluleikararnir Isabelle Faust og Augustin Hadelich, ásamt staðarlistamanni SÍ á síðasta starfsári, Sæunni Þorsteinsdóttur sellóleikara.


Sinfo_sello12693

Sæunn Þorsteinsdóttir sellóleikari var staðarlistamaður hljómsveitarinnar starfsárið 2022-23.

Tónleikum í tilefni af útgáfu Deutsche Grammophon á upptökum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á tónlist eftir Jóhann Jóhannsson undir stjórn Daníels Bjarnasonar var vel tekið og þeir sendir út í sjónvarpi og á streymisveitu útgáfunnar. Tónleikar Sinfóníunnar með Ásgeiri Trausta í samstarfi við Iceland Airwaves og tónleikarnir Fílalag og Sinfó vöktu athygli margra og mátti þar sjá marga nýja gesti.


20231102-192153-MummiLu

Ásgeir Trausti kom fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum í Eldborg í samstarfi við Iceland Airwaves tónlistarhátíðina.  

Langþráð koma breska sönghópsins King's Singers á aðventunni hitti í mark hjá mörgum tónleikagestum – og þeir yngstu tóku andköf af hrifningu þegar tröllin lifnuðu við í flutningi hljómsveitarinnar á Ástarsögu úr fjöllunum eftir Guðna Franzson við ævintýri Guðrúnar Helgadóttur á tónleikum Litla tónsprotans.


_DSC8864

Tröllið vakti mikla hrifningu viðstaddra á tónleikum Litla tónsprotans. 

Líkt og öll fyrri ár voru skólatónleikar og annað fræðslustarf sveitarinnar að sjálfsögðu á sínum stað ásamt Barnastundum og annarri dagskrá fyrir yngstu og kröfuhörðustu áheyrendur hljómsveitarinnar.


Sinfo_jol_skol15848

Hljómsveitin bauð upp á fjölbreytt fræðslustarf á árinu.

RÚV útvarpaði á Rás 1 frá nær öllum tónleikum hljómsveitarinnar í Hörpu auk þess sem sjónvarpað var frá Klassíkinni okkar og sex öðrum tónleikum í Eldborg.

Útgáfa Sinfóníuhljómsveitarinnar var einnig blómleg og á meðal diska sem út komu á árinu voru ARCHORA / AIŌN með verkum Önnu Þorvaldsdóttur sem má finna á lista The New York Times, The Boston Globe og NPR yfir klassískar plötur ársins, A Prayer To The Dynamo, með verkum Jóhanns Jóhannssonar; Atmospheriques með nýjum verkum eftir Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur, Báru Gísladóttur, Önnu Þorvaldsdóttur, Missy Mazzoli og Daníel Bjarnason; Icelandic Works for the Stage með verkum eftir Jórunni Viðar og Pál Ísólfsson og að lokum A Night At The Symphony, frá tónleikum Laufeyjar og Sinfó í Hörpu.

Hægt er að hlusta á hljómdiska Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Spotify-rás sveitarinnar.