Annáll 2024
Sinfóníuhljómsveit Íslands lék á 105 fjölbreyttum og litríkum tónleikum á árinu 2024, fyrir um 79.000 góða gesti. Meðal fjölmargra hápunkta ársins má nefna komu hins heimsþekkta sellóleikara Yo-Yo Ma en hann lék sellókonsert Elgars með hljómsveitinni ásamt því að leika á dúó-tónleikum með samstarfskonu sinni til margra ára, píanóleikaranum Kathryn Stott.
Árið 2024 hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands var blómlegt
Barbara Hannigan stjórnaði og söng í konsertuppfærslu af óperueinleiknum Mannsröddinni eftir Francis Poulenc við frábærar undirtektir tónleikagesta. Tónleikar hljómsveitarinnar á Myrkum músíkdögum voru með óvenjulegu sniði. Þar var frumsýnd kvikmynd Gjörningaklúbbsins, Flökkusinfónían, sem var samin sérstaklega fyrir hljómsveitina.
Barbara Hannigan söng og stjórnaði Mannsröddinni eftir Francis Poulenc
Á Listahátíð í Reykjavík frumflutti hljómsveitin, í framhúsi Hörpu undir stjórn Evu Ollikainen aðalhljómsveitarstjóra sveitarinnar, rýmistónverkið METAXIS eftir Önnu Þorvaldsdóttur. Auk þess stjórnaði Eva stórvirki Mahlers, sinfóníu nr. 3, í Eldborg. Barítónsöngvarinn Ólafur Kjartan Sigurðarson, staðarlistamaður sveitarinnar, kom fram í glæsilegri Wagner-veislu, en meira er í vændum frá Ólafi.
Hljómsveitin flutti METAXIS eftir Önnu Þorvaldsdóttir undir stjórn Evu Ollikainen á Listahátíð í Reykjavík
Fjölmargir erlendir listamenn komu fram sem einleikarar með hljómsveitinni og hrifu tónleikagesti, til dæmis fiðluleikararnir Leila Josefowicz og Johan Dalene og píanóleikararnir Lise de la Salle, Benjamin Grosvenor, Denis Kozhukhin, Jan Lisiecki og Javier Perianes. Einleikarar úr röðum hljómsveitarinnar voru konsertmeistararnir Sigrún Eðvaldsdóttir og Vera Panitch, Stefán Jón Bernharðsson leiðari horndeildar og Steiney Sigurðardóttir sellóleikari.
Meðal einleikara á árinu var fiðluleikarinn Leila Josefowicz
Meðal hljómsveitarstjóra sem stjórnuðu sveitinni á árinu má nefna Christian Øland, Andris Poga, Sunwook Kim og Tomáš Hanus, en sá síðastnefndi mun starfa áfram með sveitinni sem aðalgestastjórnandi á næstu tveimur tónleikaárum.
Að sjálfsögðu voru fastir liðir í dagskránni eins og árlegir Vínartónleikar og jólatónleikar en auk þess hélt hljómsveitin tónleika með Unu Torfadóttur, gleðisveitinni Baggalúti, Páli Óskari og hlaðvarpsfélögunum í Fílalag. Þá bauð hljómsveitin líka upp á hreinræktaða bíóupplifun með glæsilegum lifandi undirleik við bæði Harry Potter 3 og Home Alone.
Una Torfadóttir kom fram með hljómsveitinni í Eldborg
Hljómsveitin fór í ferðalag, heimsótti Stykkishólm og Borgarnes þar sem vel var tekið á móti þjóðarhljómsveitinni. Þar hélt hún tónleika undir stjórn Evu Ollikainen en einnig voru haldnir tvennir skólatónleikar með ævintýrinu um Maxímús Músíkús.
Líkt og fyrri ár voru skólatónleikar og samfélagsverkefni fyrirferðamikil í starfi sveitarinnar ásamt Barnastundum og tónleikaröðinni Litla tónsprotanum fyrir yngstu og dýrmætustu áheyrendurna. Á jólaföstu heimsótti sveitin meðal annars sjúkrahús og dvalarheimili og fjölbreytt fræðsluverkefni fyrir tónlistarnemendur vorum á sínum stað; hljómsveitarstjóraakademían, Ungsveit SÍ og keppni ungra einleikara. Í samstarfi við Vinafélag Sinfóníuhljómsveitar Íslands voru efnisskrár tónleika kynntar vandlega fyrir tónleikagestum.
Fræðsluverkefni Sinfóníuhljómsveitar Íslands voru margvísleg á árinu
Rás 1 útvarpaði frá nær öllum tónleikum hljómsveitarinnar á árinu, auk þess sem sjónvarpað var á RÚV frá Klassíkinni okkar og sjö öðrum tónleikum í Eldborg.
Hljómsveitarstjórinn og söngstjarnan Barbara Hannigan samdi við hljómsveitina á árinu sem er að líða og mun taka við sem aðalhljómsveitarstjóri og listrænn stjórnandi haustið 2026. Undir lok ársins tók Guðni Tómasson við sem framkvæmdastjóri hljómsveitarinnar.
Kæru tónleikagestir og velunnarar sveitarinnar, tónlistarveislan hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur auðvitað áfram. Efnisskráin framundan er einkar fjölbreytt og safarík og þjóðarhljómsveitin okkar fagnar 75 ára afmæli í mars 2025.
Sinfóníuhljómsveit Íslands þakkar samfylgdina á árinu sem er að líða.
Fylgist áfram með – heimur tónlistarinnar bíður!