EN

8. janúar 2025

Sigurvegarar í keppni ungra einleikara 2025

Árlega fer fram keppni ungra einleikara sem Listaháskóli Íslands og Sinfóníuhljómsveit Íslands standa fyrir í sameiningu. Keppnin er opin öllum nemendum á háskólastigi óháð því hvaða skóla þeir sækja og fá sigurvegarar keppninnar að koma fram sem einleikarar með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum í Eldborg í lok apríl.

Að þessu sinni voru keppendur alls átján talsins í fyrri umferð og sjö komust áfram í seinni umferð keppninnar. Dómnefnd skipuðu þau Sigrún Eðvaldsdóttir, Sigurður Bjarki Gunnarsson, Mathias Halvorsen, Tryggvi M. Baldvinsson og Guðrún Ólafsdóttir.

Niðurstöður dómnefndar liggja nú fyrir og báru þrír framúrskarandi tónlistarnemar sigur úr býtum að þessu sinni. Þau eru Bjargey Birgisdóttir fiðluleikari sem leikur fiðlukonsert númer 2 í g moll op. 63 eftir Sergei Prokofíev, Katrín Birna Sigurðardóttir sellóleikari sem leikur Tilbrigði við Rokokóstef op. 33 og Steinn Völundur Halldórsson básúnuleikari sem leikur konsert fyrir básúnu og hljómsveit.

Sigurvegararnir þrír munu stíga á svið með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum í Eldborg undir stjórn Mirian Khukhunaishvili 25. apríl 2025. Það verður gaman að fylgjast með þessum ungu hljóðfæraleikurum taka sín fyrstu skref á stóra sviðinu.

Við þökkum öllum kærlega fyrir þátttöku í keppninni og óskum sigurvegurunum innilega til hamingju með árangurinn.