EN

15. janúar 2025

Viltu spila með?

Opið samspil með Sinfóníuhljómsveit Íslands

Í tengslum við 75 ára afmæli Sinfóníuhljómsveitar Íslands efnir sveitin til samfélagsverkefnisins „Viltu spila með?“ það snýst um að öllum sem vilja er boðið að leika með Sinfóníuhljómsveit Íslands í opnu samspili í Eldborg miðvikudaginn 26. febrúar 2025 kl. 19:00 – 19:30. Með verkefninu opnar hljómsveitin dyr sínar upp á gátt og gefur almenningi kost á að taka þátt í tónlistarflutningi með okkar fremstu hljóðfæraleikurum. Búast má við að fjölmennt verði á margar raddir, sér í lagi hjá blásurum, en markmiðið er fyrst og fremst að gleðjast saman í tónlistarflutningi. Á efnisskránni eru tvö verk: Lokaþátturinn úr sinfóníu nr. 9, úr nýja heiminum, eftir Antonin Dvórak og vinsælasta aukalag hljómsveitarinnar, Á Sprengisandi, í útsetningu Páls Pampichlers Pálssonar. Ein æfing verður á undan samspilinu frá kl. 17:00 – 18:30 sama dag.

Öll þau sem eiga hljómsveitarhljóðfæri* og eru tilbúin að undirbúa sig fyrir þennan viðburð eru velkomin að sækja um á þar til gerðu umsóknareyðublaði sem er aðgengilegt HÉR. Þau sem taka þátt í verkefninu þurfa að taka þátt í báðum þáttum þess; æfingunni og samspilinu.

Umsóknarfrestur er til 18. febrúar, eða þangað til að sviðið fyllist, því að þrátt fyrir ríflega stærð Eldborgarsviðsins rúmar það ekki nema takmarkaðan fjölda flytjenda.

Stjórnandi verður Ross Jamie Collins.

*SÍ mun útvega slagverkshljóðfæri.

Lokað hefur verið fyrir skráningu þar sem að Eldborgarsvið er orðið fullt. Alls hafa rúmlega 100 hljóðfæraleikarar skráð sig auk Sinfóníuhljómsveitar Íslands og því stefnir í fjölmennustu sinfóníuhljómsveit sem nokkru sinni hefur leikið í Eldborgarsal Hörpu. Nánari upplýsingar veitir Tryggvi M. Baldvinsson: tryggvi.m.baldvinsson@sinfonia.is