Baggalútur og Sinfó sameinast þann 13. júní á stórtónleikum í Hörpu
Tvær ástsælustu hljómsveitir landsins, gleði- og aðventusveitirnar Sinfóníuhljómsveit Íslands og Baggalútur, sameina krafta sína á stórtónleikum í Eldborg í júní. Hefur það verið draumur beggja að leika saman á stóra sviðinu um árabil, og verður það nú loksins að veruleika.
Leikin verða fjölmörg gríðarlega vinsæl, fjörug, hugljúf og ástsæl lög Baggalúts, listilega útsett fyrir hljómsveitina af vandvirku fagfólki – þar sem listrænir núansar og blæbrigði í melódíum og textum fá notið sín til fulls. Reynt verður á þanþol og taugar hljóðfæraleikara og hraðamet í hljóðfæraslætti slegin. Hljómsveitarstjóri er Ross Jamie Collins, staðarhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
Óhætt er að lofa skemmtun á heimsmælikvarða fyrir alla unnendur sinfónískrar köntrítónlistar.
Tryggið ykkur sæti í tíma – Miðasala hafin hér á vefnum og í miðasölu Hörpu.