EN

6. september 2022

Breiddin skiptir máli

Sæunn Þorsteinsdóttir, staðarlistamaður, tekin tali

Það hefur verið nóg að gera hjá sellóleikaranum Sæunni Þorsteinsdóttur að undanförnu. Hún er margverðlaunuð og afar eftirsóttur einleikari um heim allan. Stórblaðið The New York Times hefur til að mynda kallað leik hennar „afar grípandi“. Þannig er hún fastagestur í Carnegie Hall í New York og hefur meðal annars komið fram með Fílharmóníusveitinni í Los Angeles, Sinfóníuhljómsveit breska útvarpsins (BBC) og Fílharmóníusveit norður-þýska útvarpsins (NDR) auk Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Þá er hún að hefja störf við Cincinnati College Conservatory í Ohio í haust. Loks má nefna að túlkun Sæunnar á sellósvítum Bachs kemur út á einleiksplötu í febrúar 2023 hjá Sono Luminus en afraksturinn fá gestir Sinfóníuhljómsveitar Íslands einmitt að hlýða á í vetur. Sinfóníuhljómsveit Íslands kynnir Sæunni til sögunnar sem staðarlistamann veturinn 2022-23 en hvernig leggst verkefnið í hana? „Þetta er mikill heiður og ég er mjög spennt. Loksins fæ ég að gera fullt af verkefnum sem ég er búin að vera að bíða með að gera, til að mynda vegna kófsins, þannig að það ríkir hjá mér bæði spenna og eftirvænting. Mér þykir alltaf jafn gaman að koma og spila á heimavelli, alveg frá því að ég spilaði fyrst með Sinfó þegar ég var enn í Juilliard.“ Efnisskrá Sæunnar á tónleikaárinu 2022-23 spannar líka mjög vítt svið, allt frá barokki yfir í heimsfrumflutning, og því lá beinast við að spyrja hvernig þetta kom til? „Við höfum verið að bíða með frumflutning á verki Veronique Vöku í tæp tvö ár út af kófinu en svo byggist þetta líka á samtali við Sinfóníuna, verkefnavalsnefnd og hljómsveitarstjóra. Ég var með fullt af hugmyndum en svo fór þetta smám saman að taka á sig mynd sem heild, bæði hvað varðar Bach-svíturnar og svo ekki hvað síst tónleikar í Föstudagsröðinni sem ég kalla sellóbration. Þar verður ekki bara dregin upp mynd af sellóinu sem einleikshljóðfæri, heldur kem ég líka til með að leika með sellódeild hljómsveitarinnar verk sem mig hefur lengi langað að gera með þeim, þannig að þetta er allt saman mjög spennandi.“ Sæunn nefnir í framhaldinu að mörg verkanna séu nátengd henni sjálfri og standi nærri hjarta hennar; að efnisskráin sýni enn fremur gríðarlega breidd. „Mér finnst einmitt breiddin skipta máli, að sýna sellóið ekki bara sem bassahljóðfæri, heldur líka sem einleikshljóðfæri og svo auðvitað kammerhljóðfæri. Frá því geta komið alls konar hljóð en á sama tíma er hljómur þess afar fallegur.“

 

Frá Bach til Bjarnasonar

Sæunn kom til Íslands snemma sumars 2020 til þess að flytja sellósvítur Bachs vestur á fjörðum en hvenær byrjaði hún á að glíma við þessa Biblíu sellóleikarans? „Ég byrjaði að læra fyrstu svítuna þegar ég var átta ára og þær hafa fylgt mér allar götur síðan, rétt eins og öðrum sellóleikurum í áratugi.“ .

Sæunn leikur Bach

Sæunn er ekki hvað síst þekkt fyrir kammermúsík - flutning og svo af samstarfi sínu við samtímatónskáld, meðal annars Íslendingana Daníel Bjarnason, Pál Ragnar Pálsson, Halldór Smárason og Þuríði Jónsdóttur. En hvernig finnst henni að starfa með tónskáldum að flutningi nýrrar tónlistar? „Mér finnst það eiginlega það mest spennandi sem ég geri, það er að segja að tala um og framkvæma nýjar hugmyndir og alltaf að vera að prófa sig áfram; ýta hugmyndum af stað. Mér finnst mikilvægt að prófa eitthvað nýtt, finna eitthvað nýtt sem hefur merkingu fyrir fólk og mér finnst mikilvægast að reyna að finna tengingu við nútímann í klassískum heimi. Svo er auðvitað mikilvægt að samtímatónskáld skrifi fyrir sellóið, enda eigum við ekki konserta eftir Mozart eða Beethoven, og það er því afar mikilvægt að eignast ný verk – reyna á sellóið sem einleikshljóðfæri. Nýtt er líka afstætt, nú er til dæmis sellókonsertinn hans Daníels sem ég spila á fyrstu tónleikunum orðin hálfgerð klassík. Á sömu tónleikum er svo frumflutningur á allt öðruvísi verki Veronique Vöku, annar hljóðheimur, önnur áferð.“

Margt spennandi framundan 

En hvað skyldi vera framundan hjá Sæunni, hinum nýja staðarlistamanni Sinfóníuhljómsveitar Íslands? „Það er margt spennandi framundan. Ég er til að mynda að flytja til Cinncinati auk þess sem ég er að kanna spuna í klassískri tónlist. Það er eitthvað sem ég geri á hverjum degi og er raunar í allri minni listsköpun.” Gestir Sinfóníuhljómsveitar Íslands fá sannarlega að njóta þess í vetur að hlýða á leik Sæunnar, enda kemur hún fram á bæði hljómsveitar- og einleikstónleikum. Við getum því öll farið að hlakka til!

Svarta röðin 2022/23 er sérstök tónleikaröð með fernum tónleikum þar sem Sæunn Þorsteinsdóttir er í einleikshlutverki.