EN

6. september 2022

Tónlist er til þess fallin að sameina fólk

Píanistinn Daniil Trifonov tekinn tali

Daniil Trifonov er heimsþekkur píanisti og einn eftirsóttasti einleikari veraldar. Hann kemur nú fram á Íslandi, bæði með Sinfóníuhljómsveit Íslands og á einleikstónleikum í Eldborg. Hann er búsettur í Bandaríkjunum og nam m.a. hjá Sergei Babayan við Cleveland Institute of Music. Trifonov er margverðlaunaður og bar meðal annars sigur úr býtum í Tsjajkovskíj-keppninni árið 2011, þá tvítugur að aldri. Þá hefur hann verið staðarlistamaður hjá fílharmóníusveitunum í Berlín og New York. Trifonov hljóðritar fyrir Deutsche Grammophon og hafa upptökur með honum hlotið margháttaðar viðurkenningar, m.a. Grammy-verðlaun, auk þess sem þær hafa jafnan dvalið lengi á metsölulistum á borð við Billboard Top Classical Album. Við slógum á þráðinn til Trifonovs þar sem hann var staddur í New York-borg og byrjum á að forvitnast aðeins um fjórða píanókonsert Beethovens sem Trifonov leikur á opnunartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á nýju starfsári.

Ég hef verið að læra alla píanókonserta Beethovens. Ég byrjaði á að læra fyrsta konsertinn og svo þann fimmta. Þá kom númer þrjú og síðast tvö og fjögur en síðasta konsertinn sem ég nefni lék ég fyrst síðasta sumar og hann á auðvitað sérstakan stað í hjörtum allra píanista.

 

Trifonov leikur Beethoven Píanókonsert nr. 4 (brot)

Aðspurður að því hvort við megum eiga von á klassískri eða rómantískri túlkun segir Trifonov: „Það er ekki svo einfalt. Ég hef alltaf verið áhugasamur um söguna og hvernig hljóðfæri hafa breyst, til að mynda hvernig Bach er leikinn á sembal og HIP-hreyfingin [Historically Informed Performances] er mjög athyglisverð. Þegar ég var að læra í Cleveland gat maður bókað æfingaherbergi í fimm tíma í einu en ég fór aðra leið, bókaði fleiri herbergi í styttri tíma til þess að leika á fleiri hljóðfæri og venjast þeim. Hljóðfærið sjálft skiptir nefnilega máli en líka hljómburður og svo eru píanistar mjög misjafnir. Maður þarf líka að gæta sín á því hvað virkar á nútímahljóðfæri. Þannig að ég myndi ekki segja klassík eða rómantík, heldur verður maður að taka mið af aðstæðum. Það sem skiptir mestu máli er hugur og hjarta píanistans sjálfs. Það er líka til mikið af fínum túlkunum á þessum konserti en mig langar að nefna upptöku sem var gerð á tónleikum í Bristol árið 1976 með Radu Lupu sem er í miklu uppáhaldi hjá mér.“

Það sem skiptir mestu máli er hugur og hjarta píanistans sjálfs

 Trifonov er einn eftirsóttasti píanisti veraldar og þá liggur beint við að spyrja hvernig hann deilir tíma sínum, milli þess að koma annars vegar fram á tónleikum og hins vegar æfa sig og læra ný verk? „Það fer eftir ýmsu“, segir hann. „Síðustu misseri hafa auðvitað verið mjög sérstök og ég hef getað æft mikið og lært mikið í kófinu. Þá var auðvitað lítið af tónleikum. En í venjulegu árferði reyni ég að koma ekki mikið meira fram en í þrjár vikur í senn og nota svo tímann þar á milli til æfinga og að læra meira. En þetta er auðvitað ákveðin jafnvægislist.“ Trifonov hlakkar til að koma til Íslands og leika með Sinfóníu - hljómsveit Íslands og svo á einleikstónleikunum í Hörpu. „Mig langar að þakka fyrir að fá að koma til landsins og mér finnst tónlist einmitt til þess fallin að sameina fólk. Svo vonast ég líka til þess að fá tækifæri til þess að skoða mig aðeins um og sjá landið.“