EN

4. janúar 2023

Breytingar á flytjendum á Vínartónleikum 2023

Söngkonan Dísella Lárusdóttir stígur á svið á Vínartónleikum hljómsveitarinnar ásamt Jóhanni Kristinssyni. Af óviðráðanlegum orsökum getur Álfheiður Erla Guðmundsdóttir ekki komið fram eins og til stóð.

Dísella Lárusdóttir hefur unnið hvern listrænan sigurinn á fætur öðrum að undanförnu sem söngkona við Metrópólitan-óperuna í New York. Söngur hennar hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda. Stórblaðið New York Times hrósaði henni fyrir fádæma nákvæmni í bland við magnaða túlkun í hlutverki hennar sem Tye drottning í uppsetningu Phelims McDermott á óperu Philips Glass, Akhnaten. Síðasta vor hlaut Dísella ásamt félögum sínum úr þeirri uppsetningu hin virtu Grammy-verðlaun fyrir bestu óperuhljóðritun síðasta árs.

Einnig þurfti hljómsveitarstjórinn Keri-Lynn Wilson sem upphaflega átti að stjórna tónleikunum frá að hverfa vegna forfalla. Bresk-finnski hljómsveitarstjórinn Ross Jamie Collins hleypur í skarðið en hann hefur þegar vakið athygli í tónlistarheiminum fyrir framúrskarandi tónlistarhæfileika og persónutöfra þrátt fyrir ungan aldur.

Við vonum að gestir okkar sýni þessum óviðráðanlegu breytingum skilning. Hlökkum til að fagna með ykkur nýju tónlistarári!