EN

25. ágúst 2022

Eins og ferskur andblær

Eva Ollikainen spjallar um komandi starfsár og horfir til framtíðar

Fyrstu tvö ár Evu Ollikainen í hlutverki aðalhljómsveitarstjóra hafa verið óvenjuleg – af ástæðum sem flestum eru kunnar. „Ég hlakka óskaplega til að eiga heilt starfsár með hljómsveitinni og geta raunverulega fylgt eftir þeirri dagskrá sem ákveðin hefur verið, því hún er óvenjulega spennandi,“ segir Eva létt í bragði, enda voru breytingar á efnisskrá, tónleikaformi og dagsetningum tónleika daglegt brauð meðan öldur heimsfaraldursins gengu yfir.

Eva stjórnar mörgum og fjölbreyttum tónleikum á starfsárinu – meðal annars upphafstónleikunum 8. september, sem segja má að gefi tóninn fyrir það sem á eftir kemur. „Við erum afar spennt að fá til okkar Daniil Trifonov sem einleikara í fjórða píanókonsert Beethovens og sömuleiðis að frumflytja á Íslandi nýtt verk Önnu Þorvaldsdóttur, ARCHORA,“ en Eva stjórnaði sjálf heimsfrumflutningi verksins fyrir fáeinum vikum með Fílharmóníusveit breska ríkisútvarpsins BBC á PROMS tónlistarhátíðinni víðfrægu, auk þess sem hún stjórnaði bandarískum frumflutningi verksins með Fílharmóníusveit Los Angeles skömmu síðar. „Svo er það Sibelius 7 – stórbrotin tónsmíð,“ segir Eva ákveðin, en verk landa hennar, Síbelíusar er einnig á efnisskrá í apríl þegar hún stjórnar tónaljóðinu Luonnotar. Finnska sópransöngkonan Anu Komsi syngur þar einsöngshlutverkið, en texti verksins er fenginn úr Kalevalasagnabálkinum og fjallar um upphaf heimsins.


EVa.anna.BBCProms

Anna Þorvaldsdóttir og Eva Ollikainen eftir frumflutning ARCHORA á BBC Proms tónlistarhátíðinni. 


Meðal annarra hápunkta á komandi starfsári að mati Evu eru tónleikar þriðja nóvember þar sem pólsk tónlist er í aðalhlutverki og pólskættaði píanóleikarinn Jan Lisiecki leikur fyrri píanókonsert Chopin. Tónleikarnir eru helgaðir minningu Bohdan Wodiczko, sem var aðalhljómsveitarstjóri SÍ frá 1965-68. „Ég er sérlega spennt að rifja upp sameiginleg kynni okkar hljómsveitarinnar af Lutoslawski,“ segir Eva. „Við fluttum þriðju sinfóníu hans 2019 og mér fannst eins og bæði hljómsveit og áheyrendur féllu fyrir þessu magnaða tónskáldi,“ segir Eva, en skömmu eftir þessa tónleika var Eva einmitt skipuð aðalhljómsveitarstjóri SÍ.

Að fanga tíðarandann

„Ég er líka sérstaklega glöð að geta boðið upp á svona mikið af samtímatónlist á tónleikunum okkar,“ segir Eva. „Þar á meðal eru tónskáld sem eru íslenskum tónleikagestum að góðu kunn, svo sem Anna Þorvaldsdóttir, Daníel Bjarnason, Kaija Saariaho, Veronique Vaka, Páll Ragnar Pálsson og Jón Nordal. En ég er líka mjög glöð að geta stjórnað verkum tónskálda sem ekki hafa ratað á tónleikapall hjá okkur áður – þetta eru tónskáld eins og hin litháíska Raminta Šerkšnytė, hin kóreska Unsuk Chin og Finninn Jukka Tiensuu. Persónulega finnst mér mikilvægt að halda tengslum við tónskáld samtímans, því það eru þau sem grípa tíðarandann og miðla í tónlistinni. Þeirra tónlist talar á einhvern hátt sterkast til okkar.“

Þakklæti og metnaður eftir heimsfaraldur

Þó síðustu tvö ár hafi oft verið snúin í tónlistarheiminum er tilfinningin sem Eva tekur með sér inn í komandi starfsár fyrst og fremst þakklæti. „Það fylgir því þakklæti að taka hlutunum ekki sem gefnum, og að horfast í augu við hversu lánsöm við erum að geta unnið við það sem við höfum brennandi ástríðu fyrir. Það er í raun ekki vinna, þegar maður lifir fyrir ástríðu sína.“

Eitt af því sem Eva er sérlega þakklát fyrir á komandi starfsári er tækifærið til að stjórna Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikaferð, en ein slík er fyrirhuguð til Bretlands í apríl. „Eftir heimsfaraldurinn er það enn meira tilhlökkunarefni en ella að geta farið út fyrir landsteinana með hljómsveitinni“ segir Eva. „Það verður án efa skemmtileg lífsreynsla að koma fram í sumum af bestu tónlistarhúsum Bretlands. Bæði er það mikilvægt fyrir andann í hópnum að stíga út úr þægindarammanum heima fyrir og reyna sig á heimssviðinu, en það er líka ómetanlegt, faglega, að fá tækifæri til að leika sömu efnisskrárnar aftur og aftur í mismunandi akústík og aðstæðum. Það verður enn sterkari og betri hljómsveit sem snýr aftur heim, reynslunni ríkari,“ segir Eva.

Meðal meginmarkmiða Evu sem aðalhljómsveitarstjóra er einmitt að leggja rækt við hljómblæ hljómsveitarinnar – þróa hennar einstaka hljóm. „Ég vil kanna áfram það sem kalla mætti okkar eigin hljóm, þó vissulega hljómum við með ýmsum hætti í verkum frá ólíkum tímum. Þetta markmið fléttast svo saman við önnur listræn markmið – hvaða listamenn við fáum til samstarfs við okkur og verk hvaða tónskálda við fáumst við. Ósk mín fyrir framtíðina er sú að hljómur okkar verði auðþekktur og sérstakur og að efnisskrár okkar yfir starfsárið verði lesnar með sérstakri spennu og eftirtekt. Við viljum hafa eitthvað alveg sérstakt fram að færa - vera eins og ferskur andblær í tónlistarheiminum,“ segir Eva Ollikainen, full af sköpunarkrafti og eftirvæntingu fyrir komandi starfsári.