EN

26. ágúst 2022

Innblásturinn er alltaf tónlistin sjálf

Anna Þorvaldsdóttir, staðartónskáld, tekin tali

Anna Þorvaldsdóttir hefur verið staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá árinu 2018. Hún er áhrifavaldur á sviði samtímatónsmíða og verk hennar eru flutt af fremstu hljómsveitum og tónlistarfólki heims. Nægir þar að nefna fílharmóníusveitirnar í Berlín, Los Angeles og New York. Verk Önnu verða ofarlega á baugi hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands á starfsárinu, í Hörpu sem og á tónleikaferð hljómsveitarinnar til Bretlands. Meðal verka sem hljóma er ARCHORA, glænýtt verk sem Anna hefur nýlokið við, og var frumflutt á Promstónlistarhátíðinni í Lundúnum í ágúst 2022 undir stjórn Evu Ollikainen en það var pantað sérstaklega á hátíðina í samstarfi við aðrar hljómsveitir, þar á meðal Sinfóníuhljómsveit Íslands.
 
ARCHORA var rúmlega ár í smíðum. Ég hef mikla ástríðu fyrir að skrifa stór verk, og sérstaklega fyrir hljómsveit, svo ég reyndi að láta það ekki trufla ferlið að enn voru að koma til lokanir og frestanir á tónleikum á sama tíma og ég skrifaði verkið, frá 2021 til 2022. Aðal innblástur verksins tengist ákveðinni frumorku og þeim andstæðum sem geta búið í sama efninu eða sama heimi.“ Að sögn Önnu er grunnhugmyndin um þá tvístrun sem verður til þegar hlutirnir glata innbyrðis tengingu sín á milli og öfgarnar verða því nær óþekkjanlegar sem hluti af sama heimi. En „framvinda verksins og efnið stýrist af þessum andstæðu öflum, sem þó eru nátengd.“ Fyrir Önnu þjónar innblásturinn þó alltaf fyrst og fremst tónlistinni sjálfri (en ekki öfugt).


Byggð á hinu brothætta sambandi menneskjunnar við náttúruna

Við báðum svo Önnu að segja okkur aðeins frá CATAMORPHOSIS og frumflutningnum sem fór fram í Berlín í janúar 2021, mitt í Covid-19. „Ég skrifaði CATAMORPHOSIS að mestu leyti árið 2020 og það var afskaplega sérstakt að skrifa þetta stóra verk á sama tíma og verið var að hætta við og fresta tónlistarflutningi um allan heim. En það var gott að sitja við að skrifa verkið á þeim tíma og ná að hvíla í tónlistinni.“

 

  

Kafli úr CATAMORPHOSIS eftir Önnu Þorvaldsdóttur í flutningi Berlínarfílharmóníunnar

Að sögn Önnu er aðal hugmyndin að baki CATAMORPHOSIS „byggð á hinu brothætta sambandi manneskjunnar við náttúruna og þeirri hættu sem steðjar að ef ekkert verður að gert.“ Anna segir að verkið sé persónulegt og nokkuð dramatískt en líka fullt af bjartsýni. „Það var síðan á einhvern hátt heimsendalegt þegar frumflutningur verksins fór fram fyrir tómum sal á netinu í janúar 2021 í Digital Concert Hall hjá Berlínarfílharmóníunni undir stjórn Kirills Petrenko. Það var auðvitað alveg frábært að þau skyldu geta haldið tónleikana og frumflutt undir þessum kringumstæðum og líka gott að tónleikarnir voru strax aðgengilegir um allan heim.“ Anna gat sjálf ekki verið á staðnum vegna ferðatakmarkana en hún átti fjölmörg „afskaplega góð samtöl við Petrenko og fékk sendar upptökur af æfingunum hjá þeim til að bregðast við og æfa þannig með þeim úr fjarska. En ég mun örugglega aldrei gleyma þessari sérstöku reynslu af svona stórum frumflutningi.“ Verkið CATAMORPHOSIS verður á dagskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands í lok september 2022.

 

 

Innblásturinn er alltaf tónlistin sjálf 

METACOSMOS verður meðal annars flutt á tónleikaferð Sinfóníuhljómsveitar Íslands til Bretlands vorið 2023. Verkið var frumflutt af Fílharmóníusveit New York-borgar í apríl árið 2018 undir stjórn Esa-Pekka Salonen – en hvað getur Anna sagt okkur um það verk? „Í METACOSMOS varð hugmyndin um sambandið á milli óreiðu og fegurðar strax mjög sterkur innblástur, og þá sérstaklega það hvernig óreiða getur umbreyst í samheldna og formsterka heild.“ Sjálf notar Anna myndlíkinguna um að falla í svarthol til að lýsa grunnhugmyndinni. „Í verkinu birtist þessi hugmynd í grunninn sem marglaga togstreita, á milli mismunandi afla og á milli óreiðu og fegurðar. Úr þessu öllu saman verða til margir mismunandi heimar, þar sem mismunandi öfl takast á. Það er þó ekki þannig að tónlistin sem slík beinlínis lýsi þessu – hugmyndirnar eru auðvitað aðeins innblástur og leið til að vinna með efnivið og framvindu tónlistarinnar. Ég reyni ekki að lýsa innblæstrinum í gegnum tónlist, heldur verður tónlistin til þegar ég finn eiginleika í hugmyndum sem ég skynja „tónlistarlega“. Síðan, þegar tónlistin er tilbúin, þá finnst mér alltaf mikilvægast að hver hlustandi nálgist hana á sínum forsendum.“

 

 

METACOSMOS eftir Önnu Þorvaldsdóttur í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Hvað er svo framundanhjá þér? „Ég er alltaf með nokkurra ára dagskrá af pöntunum og er með spennandi verkefni fram undan. Til dæmis er ég að skrifa stórt rýmisverk fyrir Sinfóníuna sem heitir METAXIS, þar sem sinfónían verður dreifð um hin ýmsu rými og á mismunandi hæðum í Hörpu - þetta verður því ekki tónleikaverk sem slíkt heldur einskonar innsetning fyrir dreifða hljómsveit. Síðan er næsta stóra verk sellókonsert, en hann verður frumfluttur í San Francisco vorið 2024 undir stjórn Esa-Pekka Salonen og Sinfóníuhljómsveit Íslands er líka aðili að þeirri pöntun. Síðan er ég með nokkur minni verk á dagskrá, til dæmis nýjan strengjakvartett fyrir Danish String Quartet og klukkustundar langt kammerverk fyrir bandaríska flautuleikarann Claire Chase – bæði verða frumflutt í Carnegie Hall í New York vorið 2023. Síðan eru fleiri stór hljómsveitarverk í farvatninu í náinni framtíð“