Fegurðin er útgangspunktur trúðsins
Halldóra Geirharðsdóttir leikkona segir frá trúðnum Barböru sem hefur glatt tónleikagesti Sinfóníunnar í áraraðir
Kynnir á jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands 14. og 15. desember er trúðurinn Barbara sem er leikinn af Halldóru Geirharðsdóttur. Trúðurinn hefur notið mikilla vinsælda á tónleikum hljómsveitarinnar í áraraðir og í viðtali við Halldóru segist hún frá tilurð og hlutverki trúðsins sem brú á milli hljómsveitarinnar og tónleikagesta.
Leiðarinn Barbara
Aðspurð segir Halldóra að trúðurinn Barbara hafi fæðst í Nemendaleikhúsinu á sínum tíma. Við fengum leikstjóra frá París, Mario Gonzalez, sem kenndi okkur trúðatækni sem hann hafði sjálfur þróað upp úr ítalska götuleikhúsinu, og byggir á sterku sambandi við áhorfendur og spuna. Mér fannst þá í fyrsta sinn að ég ætti erindi í leikhúsið. Það var einlægni og sannleikur sem ég fékk aðgang að í gegnum þetta form. Trúðurinn er sannleiksengill, sem leitast við að gera allt eins fallegt og stórkostlegt og hann mögulega getur. Fegurð er útgangspunktur í öllu, maður undirbýr sig þannig og svo kemur rauða nefið og þá gerist eitthvað. Öll mistök eru gjafir frá Guði og því tekur trúðurinn mistökum fagnandi og endurtekur þau jafnvel þrisvar til að undirstrika hvað hann er ánægður og þakklátur fyrir þau. Frelsið fyrir mig var að fara einhvern veginn framhjá hausnum og fara þess í stað beint frá hjartanu út í talfæri og hreyfingar.
„Fegurð er útgangspunktur í öllu, maður undirbýr sig þannig og svo kemur rauða nefið“
Grét á fyrstu tónleikunum
„Hljómsveitin var á sínum tíma að leita að einhverri skemmtilegri fígúru, mörgæs eða einhverju slíku, og Helga Hauksdóttir, þáverandi tónleikastjóri spurði hvort ég hefði áhuga á að kynna Litla tónsprotann, fjölskyldutónleika hljómsveitarinnar. Ég sagði henni að ég ætti einn karakter sem héti Barbara og hún gæti mjög vel blómstrað með Sinfóníuhljómsveitinni. Mér finnst eiginlega að við Barbara höfum komist heim sem kynnar á barnatónleikum, því að ég lærði sjálf á hljóðfæri frá sex ára aldri til tvítugs en vissi þó alltaf að framtíð mín fælist ekki í því að verða hljóðfæraleikari. Þó svo að ég spilaði á hljóðfæri og væri músíkölsk og meðlimur í hljómsveit þá hafði ég ekki það sem þarf til að gerast atvinnuhljóðfæraleikari. Þegar ég byrjaði sem kynnir hjá hljómsveitinni var eins og ég hefði fundið gamalt ástarsamband, sem var jafnvel orðið enn dýpra og fallegra.
Á fyrstu tónleikunum sem ég kynnti stóð ég í sviðsvængnum og grét,
mér fannst svo stórkostlegt að fylgjast með hljóðfæraleikurunum,
hlusta og vera inni í tónlistinni með þeim.“
Að búa til brú
„Ég lít þannig á að ég sé millistykki milli barnanna og hljómsveitarinnar, þannig að mér finnst ég bæði þurfa að halda börnunum á tánum og hljómsveitinni líka. Ef ég er með nokkra tónleika í röð reyni ég að skapa þá spennu í kringum mig að hljómsveitin viti ekki alveg upp á hverju ég tek, þannig helst hljómsveitin líka spennt fyrir því sem gerist. Ef þú ert með 1500 börn sem sitja í salnum og horfa á hljómsveit sem hefur áhuga, þá hljóta þau að hafa meiri áhuga. Ég tók líka þá stefnu að vera ekki að þylja upp ártöl, titla eða nöfn eða eitthvað sem barn getur ekki gripið, frekar að koma með eitthvað sem barnið skilur og getur tengt við hljómsveitina og verkið sem flutt er. Markmið mitt er að búa til brú sem færir barnið nær hljómsveitinni og nær tónlistinni helst þannig að börnin fari heim og geti hugsað sér að koma aftur.“
Jólatónleikar Sinfóníunnar eru á meðal vinsælustu tónleika sveitarinnar
og heldur trúðurinn Barbara öllu saman af sinni alkunnu snilld.
Að finna trúðinn í sjálfum sér
„Trúðurinn fagnar mistökum og gleðst yfir þeim og er þakklátur fyrir þá gjöf að fá að sjá hvað átti ekki að gera. Það væri stórkostlegt ef fleiri hugsuðu þannig, til dæmis inni á Alþingi,“ segir Halldóra og hlær og breytist skyndilega í Barböru og kemur með pólitískar afsakanir. „Ein góð trúðaregla er sú að telja alltaf upp að þremur áður en maður svarar, það er í raun einn andardráttur. Það kemur annað svar en ef þú hefði svarað spurningunni um leið líkt og að spurningin hafi farið í gegnum allt kerfi líkamans. Annað er að glenna upp augun, með því býr maður til tilfinninguna að maður sé hissa, því fylgir óttablandin eftirvænting og forvitni. Þú opnar hjartað og lest með líkamanum. Hugsaðu þér ef 70 manna hljómsveit lifði þessa trúðareglu og væri alltaf með þá afstöðu, þá held ég að spegilfrumur gestanna myndu glennast upp og þeir hugsa: „Það er eitthvað stórkostlegt að fara að gerast.“ Það væri náttúrlega geggjað ef hljómsveitin væri öll með rauð nef, kannski ætti ég að taka hljómsveitina á trúðanámskeið?“ segir Halldóra sposk að lokum.
- Eldri frétt
- Næsta frétt