EN

4. október 2021

Frá Kópavogi hopp stopp til Shostakovits

– Viðtal við Ástu Dóru Finnsdóttur

„Ég byrjaði í Suzuki-námi þegar ég var fimm ára og þá var Kópavogur hopp stopp auðvitað fyrsta lagið sem ég lærði. En fyrir það hafði ég reyndar átt dótapíanó úr Toys-R-Us og lék mér við að spila á það. Örugglega afmælissönginn eða eitthvað þannig,“ segir Ásta Dóra Finnsdóttir, hinn 14 ára gamli píanóleikari sem kemur fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum miðvikudagskvöldið 6. október, um upphaf spilamennsku sinnar. Ásta Dóra leikur píanókonsert nr. 2 eftir Dimitri Shostakovitsj og verður tónleikunum sjónvarpað í beinni útsendingu á RÚV. Hún er meðal yngstu einleikara sem komið hafa fram með hljómsveitinni á hefðbundnum tónleikum hennar.

Spurð um fyrirmyndir og áhrifavalda nefnir Ásta Dóra Ölmu Deutscher, píanista sem er tveimur árum eldri en hún sjálf og hefur, líkt og Ásta Dóra hefur sjálf gert, vakið mikla athygli fyrir hæfileika sína á tónlistarsviðinu. „Hún er svo stórkostleg þegar kemur að því að semja og spila,“ segir Ásta Dóra um Ölmu, sem er bæði eftirsótt tónskáld og einleikari um allan heim.

Hvað með ráð handa krökkum sem er að læra á hljóðfæri og langar að ná langt? Getur Ásta Dóra gefið þeim góð ráð? „Ég myndi segja að það skipti öllu máli að reyna að hafa gaman af því sem maður er að spila. Í píanónámi er maður auðvitað látinn spila mikið af skölum og allskonar æfingum, sem eru grunnurinn að öllu hinu. En jafnvel í þeim eða þó það séu bara lög eins og Kópavogur hopp stopp eða Menúett í G-dúr, er mikilvægt að segja sögu í gegnum þau. Reyndu að túlka þau á þinn eigin hátt, á þann hátt sem þú skilur tónlistina. Kannski er þér ráðlagt að ímynda þér engi eða fjall eða eitthvað þannig meðan þú ert að spila, en kannski hentar það þér alls ekki að hugsa um þessa hluti. Kannski lítur þú tónlistina einhverjum allt öðrum augum og það er í fínu lagi. Leggðu þinn eigin skilning í tónlistina.“

Listrænum hæfileikum og áhuga Ástu Dóru virðast lítil takmörk sett því hún fæst líka við myndlist meðfram tónlistinni. En skyldi þetta tvennt tengjast með einhverjum hætti – verður hún fyrir áhrifum af því sem hún er að spila á píanó, sem hún vill koma til skila í mynd líka? „Í rauninni er það frekar öfugt, því þegar ég er að teikna á tölvuna mína hlusta ég á allt öðruvísi tónlist en klassíska tónlist,“ svarar Ásta Dóra og hlær við þegar hún er beðin að segja á hvað hún hlusti. „Ég hlustaði til dæmis á Electro Swing á tímabili. Og oft bara allskonar öðruvísi tónlist, einhvers konar teknó-rokk. En þegar ég teikna er ég líka að teikna teiknimyndapersónur og tölvuleikjapersónur, engar Mónur Lísur.“