EN

3. maí 2023

Sinfóníuhljómsveit Íslands hlaut frábærar viðtökur í tónleikaferð sinni um Bretland

9.000 tónleikagestir í sjö borgum

Sinfóníuhljómsveit Íslands er komin heim úr velheppnaðri tónleikaferð um Bretland. Hljómsveitin hélt alls sjö tónleika í jafnmörgum borgum og voru tónleikasalirnir með þeim helstu í Bretlandi, má þar nefna Cadogan Hall í Lundúnum, Symphony Hall í Birmingham, Bridgewater Hall í Manchester og Usher Hall í Edinborg. Hljómsveitin spilaði fyrir fullu húsi og hlaut frábærar viðtökur áheyrenda og flutningur hljómsveitarinnar hefur einnig hlotið mikið lof gagnrýnenda í breskum fjölmiðlum.

 Hljómsveitin hélt tónleika í mörgum helstu tónleikahúsum Bretlands, þar á meðal í Cadogan Hall í London en uppselt var á tónleikana. 

Aðalhljómsveitarstjóri hljómsveitarinnar, Eva Ollikainen, hélt um tónsprotann en einleikari var breski píanóleikarinn Sir Stephen Hough sem er talinn í hópi virtustu og fjölhæfustu píanóleikara samtímans.

Photo-20.4.2023-19-06-39

Eva Ollikainen aðalhljómsveitarstjóri og einleikari ferðarinnar, píanistinn Sir Stephen Hough. 

Nýtt íslenskt verk eftir Önnu Þorvaldsdóttur, staðartónskáld hljómsveitarinnar, METACOSMOS var flutt á öllum tónleikum ferðarinnar en önnur verk á efnisskrá voru píanókonsert nr. 2 eftir Rakhmanínov og þriðji píanókonsert Beethovens, auk fimmtu sinfóníu Tsjajkovskíjs.

Photo-21.4.2023-18-22-11

Anna Þorvaldsdóttir staðartónskáld fylgdi hljómsveitinni eftir en verk hennar METACOSMOS hljómaði á öllum tónleikum ferðarinnar. 

Gagnrýnandi ReviewsGate, William Ruff, gaf tónleikum hljómsveitarinnar í Royal Concert Hall í Nottingham fimm stjörnur og segir m.a.: 

Ísland er öflugra en stærðin gefur til kynna þegar kemur að klassískri tónlist. Heildarfjöldi íbúa eyjarinnar er varla helmingur þeirra sem búa í Notthingham og nágrenni, þrátt fyrir það getur eyjan státað af heimsklassa sinfóníuhljómsveit sem laðar að sér bestu einleikarana eins og einleikara miðvikudagskvöldsins, stjörnupíanistann Sir Stephen Hough.“ 

 

343946112_1027369444970591_6775903265126116905_n

Í gagnrýni Seen and Heard International segir um tónleika hljómsveitarinnar í Basingstoke:

 Þessir tónleikar [...] voru þeir best sóttu sem ég hef orðið vitni að síðan fyrir heimsfaraldurinn. Stór og áhugasamur áheyrendahópur fékk að njóta tónleika sem einkenndust af miklu listfengi og tæknilegu öryggi. Á undanförnum árum hefur Sinfóníuhljómsveit Íslands fest sig í sessi sem afar hæf hljómsveit með röð hljóðritana sem gefin hafa verið út hjá virtum útgáfufyrirtækjum, svo þetta var spennandi tækifæri til að heyra í hljómsveitinni í lifandi flutningi. Hún kom fram undir stjórn hinnar innblásnu og kraftmiklu Evu Ollikainen, sem skipuð var aðalhljómsveitarstjóri sveitarinnar 2019.“


Í The Herald Scotland var sagt um tónleika hljómsveitarinnar í Edinborg:

 Tónleikagestir í Edinborg geta verið hlédrægir, en þetta síðdegi einkenndist andrúmsloftið af eftirvæntingu, rétt eins og allir vissu fyrirfram hversu framúrskarandi tónleikar væru í aðsigi.

[Metacosmos] var flutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Evu Ollikainen, sem stýrði efnisskránni af krafti og þokka aðalballerínu. Þá hljómaði Píanókonsert nr. 2 eftir Rakhmanínov, sem margir þekkja úr Brief Encounter, með Sir Stephen Hough við hljómborðið. Að þeim flutningi loknum mátti heyra stappað og klappað í áköfum fagnaðarlátum.

Maður hélt að tónleikarnir gætu ekki batnað – en það var afsannað með fjörlegum og töfrandi flutningi hljómsveitarinnar á fimmtu sinfóníu Tsjajkofskíjs. Þegar við héldum aftur út í svalt Edinborgarkvöldið var eins og við hefðum um stundarsakir verið hrifin inn í annan heim.“