EN

15. október 2018

Viðtal við Nobuyuki Tsujii

„Góð pressa að spila Rakhmanínov með Ashkenazy“

„Annar píanókonsertinn er eitt af stórkostlegustu verkum Rakhmanínovs,“ segir japanski píanóleikarinn Nobuyuki Tsujii, sem kemur fram öðru sinni með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Vladimir Ashkenazy þann 25. október, áður en einleikari, stjórnandi og hljómsveit leggja af stað í tónleikaferð um Japan með konsertinn í farteskinu.

„Hann er stór, rómantískur og býr yfir mikilfengleika rússneskrar náttúru. Ég hef spilað hann víða og á margar góðar minningar tengdar honum,“ segir Nobu. „En það er ólíkt í hvert sinn, svo ég hlakka til að spreyta mig með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Ashkenazy. Þetta verður enn sérstakara með Ashkenazy við stjórnvölinn, enda hefur hann sjálfur spilað verkið ótal sinnum og þekkir það inn og út sem píanisti, ekki síður en sem hljómsveitarstjóri. Það er ekki laust við að það skapi ákveðna pressu fyrir mig – en góða pressu!“ bætir hann við og hlær.

Dáist að einlægninni og vinnuseminni

Það er óhætt að segja að tónleikar Nobu og Ashkenazy í apríl síðastliðnum hafi verið meðal hápunkta síðasta starfsárs. Þá kom Nobu til Íslands í fyrsta skipti, en samstarf þeirra Ashkenazys hófst árið 2010 og hafa þeir meðal annars komið fram víða um Japan, í Lundúnum og Sidney. Nobu segir þó að kynni hans af Ashkenazy nái raunar mun lengra aftur. 

„Ashkenazy er stórkostlegur tónlistarmaður, og í raun kynntist ég honum strax í æsku í gegnum píanóupptökur hans – til dæmis af verkum Chopins – það eru frábærar hljóðritanir sem eru mér enn kærar,“ segir hann. 


„Ég lít mjög upp til Ashkenazys sem tónlistarmanns – til dæmis fyrir þá tryggð sem hann sýnir tónskáldinu, heiðarleikann sem einkennir umgengni hans við tónlistina. Túlkun hans er afar einlæg, og það er meðal þess sem ég dáist að. Og svo er annað merkilegt sem ég hef tekið eftir á tónleikaferðalögum okkar: Þótt hann sé nú í hlutverki hljómsveitarstjórans slær hann aldrei slöku við, heldur æfir sig á píanóið á hverjum degi. Ég ber ómælda virðingu fyrir því.“

Náttúruunnandi og matgæðingur

Þótt Nobu sé ekki orðinn þrítugur eru tæp tíu ár síðan honum skaut upp á stjörnuhimin klassískrar tónlistar þegar hann sigraði í hinni virtu Van Cliburn-píanókeppni 2009. Það var einmitt Píanókonsert nr. 2 eftir Rakhmaninov sem skilaði hinum unga píanista fyrsta sætinu í úrslitunum. 

„Ég hef notið þess að koma fram síðan ég var lítill strákur, og ég nýt þess enn – að spila fyrir fólk. Í sannleika sagt elska ég tónlist frá mínum dýpstu hjartarótum,“ 


segir Nobu, sem var ekki nema eins árs þegar hann tók að sýna fádæma tónlistarhæfileika. Þá tók hann ástfóstri við leikfangapíanó sem móðir hans gaf honum, en Nobu var blindur frá fæðingu. „Að vinna þessa keppni gaf mér tækifæri til þess að koma fram með frábærum tónlistarmönnum í virtum tónleikasölum víða um heim – það var það sem mig dreymdi um. Nú vil ég bara halda áfram að læra og vaxa sem listamaður, og halda áfram að spila á tónleikum.“ Og hann segist ekki orðinn þreyttur á þeim ferðalögum sem líf konsertpíanistans útheimtir. „Ég elska að heimsækja ný lönd og nýja staði, kynnast nýrri menningu og nýju andrúmslofti – og auðvitað smakka framandi mat,“ segir Nobu og bætir við að hann sé mikill matgæðingur. „Svo finnst mér fátt betra en að fara í gönguferðir, helst í náttúrunni. Þannig sæki ég innblástur fyrir tónlistina á hverjum nýjum stað, og hann nýtist líka í mínum eigin tónsmíðum. Þannig að ég er hreint ekki búin að fá leiða á ferðalögunum – öðru nær!“ segir Nobu, sem hlakkar mikið til að bjóða Sinfóníuhljómsveit Íslands velkomna til Japans. „Tónleikarnir eru auðvitað tilhlökkunarefni í sjálfu sér, en ég vona samt líka að við höfum tíma til að njóta japanskrar matargerðarlistar og náttúrufegurðar. Vonandi gefst svolítill tími til þess að hljómsveitin geti skoðað sig um.“

Í nóvember heldur Sinfóníuhljómsveit Íslands í tónleikaferð til Japans með Nobuyuki og Ashkenazy. Hér má lesa meira um tónleikaferðalagið.