EN

29. ágúst 2018

Heyr himna smiður hlaut flest atkvæði í Klassíkinni okkar

Síðastliðin tvö ár hefur Sinfóníuhljómsveit Íslands í samstarfi við RÚV haldið tónleika með yfirskriftinni „Klassíkin okkar“, þar sem landsmenn hafa valið eftirlætis klassísku tónverkin sín sem síðan voru flutt á sérstökum sjónvarpstónleikum í Eldborg. Tónleikarnir þóttu báðir heppnast sérlega vel og því var ákveðið að efna til slíks viðburðar í þriðja sinn, nú með áherslu á íslenska tónlist í tilefni af aldarafmæli fullveldis Íslands.

Efnt var til netkosningar í vor þar sem allir landsmenn gátu valið eftirlætis íslensku verkin sín. Kosningu lauk 17. júní síðastliðinn og þá lá fyrir hvaða verk höfðu fengið flest atkvæði. Hlutskarpast varð Heyr, himna smiður eftir Þorkel Sigurbjörnsson við sálm Kolbeins Tumasonar, en í öðru sæti varð hljómsveitarverkið Eldur eftir Jórunni Viðar.

Á „kjörseðlinum“ voru 40 verk og var þeim skipt í nokkra flokka, einsöngs- og kórlög, hljómsveitarverk og konsertar. Einnig gátu þátttakendur bætt við eftirlætis verkum að eigin vali þegar atkvæði var greitt. Það verk sem hlaut flest atkvæði í þessum reit kosningarinnar var Intermezzo úr Dimmalimm eftir Atla Heimi Sveinsson, sem vitaskuld hljómar einnig á tónleikunum. Efnisskráin er einkar fjölbreytt og hefur að geyma ótal gullmola íslenskrar tónlistar sem spanna ríflega heila öld, allt frá Draumalandi Sigfúsar Einarssonar frá árinu 1904 til Bow to String eftir Daníel Bjarnason frá árinu 2010. Íslensk tónskáld hafa svo sannarlega verið iðin við að færa okkur dásamlega tónlist og á tónleikunum fáum við að njóta afrakstursins.

Nánar um tónleikana